Auðlind sjávar í þágu þjóðar.

Karl Matthíasson, alþingismaður skrifar.

Í þeirri endurskoðun sem nú fer fram á fjármálum þjóðarinnar verður að huga að því hvort kvótakerfið hefur skilað eiganda sínum - þjóðinni - eðlilegum arði.
Auðæfi sjávar eru sameign þjóðarinnar og hún á að fá fullan arð af eign sinni.

Til að hamla gegn ofveiði var tekið upp aflamarkskerfi í hringnótaveiðum á síld árið 1975.  Næstu ár á eftir voru tvö önnur kerfi prófuð, skrapdagakerfi og sóknardagakerfi. Þessi kerfi reyndust misjafnlega og var því ákveðið að taka upp aflamarkskerfi. Frá árinu 1984 var það samhliða sóknarkerfi sem smám saman var látið víkja og er nú horfið með öllu.

Með vissum undantekningum má því segja að stjórn fiskveiða hafi byggst á sömu meginreglu allt frá árinu 1984. Á því ári var kvótanum að miklu leyti úthlutað í samræmi við aflareynslu skipa  þrjú ár þar á undan. Kvótakerfið var lögfest til eins eða tveggja ára í senn fyrstu árin, en árið 1990 var kerfið fest í sessi ótímabundið. Vert er að vekja athygli á því að rökin fyrir þessari breytingu voru þau, að slíkt skapaði stöðugleika og öryggi í greininni.

Framsal á fiski.
Með fyrrnefndum lögum frá 1990 var gerð önnur afdrifarík breyting. Hún var sú að kvótinn var gerður framseljanlegur. Þeir sem kusu að selja kvóta og snúa sér að öðru fengu skyndilega mjög háar fjárhæðir upp í hendurnar, fjárhæðir sem þeir fengu án eðlilegs  vinnuframlags.
Með lögunum frá 1990 var nú kvótinn orðinn eins konar séreign sem hægt var að kaupa, selja, leigja og jafnvel veðsetja með óbeinum hætti.
Kvótinn varð fljótlega mjög dýr.  Sumar útgerðir hafa jafnvel talið hag sínum betur borgið með því að leigja frá sér kvóta í stað þess að veiða fiskinn en eigandinn, þjóðin sjálf, hefur ekki fengið þá peninga í hendur. Þetta háa verð hefur annarsvegar leitt til gríðarlegrar skuldasöfnunar útgerðar í landinu og hins vegar til þess að nýliðun í greininni er nánast engin.

Málaferli og deilur.
Þetta fyrirkomulag, að afhenda örfáum aðilum stóran hluta auðlinda þjóðarinnar, var auðvitað mjög umdeilt frá upphafi. Fjöldi breytinga á lögunum frá 1990 endurspeglar þetta. Á næstu átta árum eftir að kvótakerfið var fest í sessi voru ekki færri en sex breytingar gerðar á lögunum. Segja má að nú sé búið að breyta öllum greinum upphaflegu laganna, nema þeirri fyrstu, en hún kveður á um eignarétt þjóðarinnar á auðlindinni. Ófáir dómar sem fallið hafa vegna kvótakerfisins endurspegla líka þessi átök.  Nýlegur úrskurður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um jafnræði til veiðaendurspeglar jafnframt þennan ágreining.

Hver á fiskimiðin?
En hvað sem hinum almenna borgara finnst um réttlæti þessa kerfis, er það nú samt enn við lýði. Það viðhorf að handhafar kvótans séu eigendur hans hefur hreiðrað um sig hjá þeim sjálfum, enda verja þeir hagsmuni sína með kjafti og klóm. Þeir beita jafnvel  þeim röksemdum að andstæðingar kerfisins vilji rústa útgerðinni og koma hundruðum fjölskylda á vonarvöl.
Margir hafa hins vegar bent á þá staðreynd að heilu byggðarlögin hafi misst næstum allan rétt sinn til fiskveiða vegna kvótakerfisins.
Það sjónarmið að aflaheimildirnar séu meðhöndluð sem séreign handhafa þeirra stríðir gegn fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða, en hún er svona: “Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.”

Við þessa mótsögn getur þjóðin að mínu mati ekki búið!

Auðlindahagfræði.
Ýmsar röksemdir eru færðar fram fyrir því að arður af auðlindum í höndum einkaaðila skili sér til viðkomandi þjóðar, m.a. að eigandinn hafi hag af því að nýta auðlindina sem best til lengri tíma og að umframhagnaður komi því að lokum  fólkinu til góða. Aðrir telja líklegt að í svona kerfi sitji eigendurnir einir að hagnaðinum. Þeir skeyti lítt um eiganda auðlindarinnar,þjóðina og þeir skeyti jafnvel lítt um starfsfólk sitt þegar stórar ákvarðanir eru teknar um sölu eigna eða hagræðingu.
Sáttaleiðin.
Aflamarkskerfið hefur reynst sæmilega til að stjórna veiðum á ýmsum tegundum fiska. Eignarhald útgerðanna á veiðiréttinum er hins vegar í algerri mótsögn við við hagsmuni og vilja þjóðarinnar. Í því felst ranglæti sem vegur að mannréttindum og grefur undan búsetu  á landsbyggðinni. Ég tel því að sáttaleið þessa mikla deilumáls felist í því að stjórnvöld gæti að fullu eignarhalds á auðlindinni fyrir hönd þjóðarinnar og jafnræðis útgerðarmanna til nýtingar hennar. Þetta er hægt að gera á grundvelli aflamarkskerfisins og án þess að kollvarpa útgerð í landinu.

Kalli Matt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir