Athyglisverður forréttur

Vigdís Elva Þorgeirsdóttir og Þröstur Árnason frá Skagaströnd buðu lesendum Feykis upp á dýrindis uppskriftir fyrir réttum þremur árum síðan en forrétturinn þeirra, marineraða lúðan/ýsan, vakti mikla athygli lesenda. Þau  Vigdís og Þröstur skoruðu á Péturínu Laufeyju Jakobsdóttur, aksturíþróttamann ársins 2001, leikkonu og skrifstofustjóra hjá Léttitækni og Reynir Lýðsson, Strandamann, bjargvætt og stöðvastjóra fiskmarkaðsins á Skagaströnd að koma með uppskrift tveimur vikum síðar.

 

Forréttur

Marineruð lúða/ýsa

  • 450 gr lúða (má líka nota ýsu)
  • Safi úr 4 sítrónum
  • 1 -2 saxaðir laukar
  • 3-4 paprikur, saxaðar (sitt hvor liturinn)
  • 4-5 tómatar, saxaðir
  • Ólífuolía
  • Salt
  • Pipar
  • Tabaskósósa

Aðferð:  Lúðan/ýsan þarf að vera flökuð og roðrifin. Flökin skorin í lengjur og síðan í litla bita, s.s. eins og sykurmola. Lögð á fat og þerruð. Safanum úr sítrónunum er hellt yfir og hrært í, gæta þarf þess að safinn hylji alla bitana. Laukurinn saxaður og blandað saman við, þá paprikunum og að síðustu tómötunum. Loks er ólífuolíunni hellt yfir allt saman og salti og pipar bætt við eftir smekk.
Allra síðast er nokkrum dropum af tabaskósósu bættt við.
Rétturinn er látinn standa í 6 klst. áður en hann er fram reidddur.

Aðalréttur:

Fylltur, úrbeinaður lambahryggur

1 stór lambahryggur

Fylling:

  • 3 stk hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 60 gr sólþurkaðir tómatar, saxaðir
  • 60 gr fetaostur
  • 3 msk furuhnetur (má sleppa)
  • 5 msk fersk steinselja söxuð
  • 100 gr franskbrauð, skorið smátt
  • 50 gr smjör, brætt
  • 1 tsk pipar

Aðferð: Fyllið hrygginn með fyllingunni og lundunum, bindið saman með rúllupylsugarni.  Kryddið hrygginn með salti og pipar. Setjið hrygginn inn í 200°c heitan ofninn og eldið í u.þ.b. klukkustund. Þessa uppskrift er líka hægt að nota sem fyllingu í úrbeinað lambalæri. Meðlætið er sósa, brúnaðar kartöflur, ferskt salat m/ fetaosti.

Eftirréttur:
Berjabomba

  • 4-6 kókosbollur
  • ½ l rjómi
  • 1 – 1 ½ - box jarðarber
  • 1 box bláber
  • Slatti af vínberjum (steinalausum)
  • 2-3 kíwí
  • 150 gr  Nóakropp

Aðferð:
Kókosbollurnar eru kramdar í eldfastmót, rjóminn þeyttur og smurður yfir kókosbollurnar, berin skorin, kíwíin afhýdd og skorin í bita. Þessu er stráð yfir rjómann og bollurnar, því næst er Nóa kroppið stráð yfir.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir