Áshús og fyrirhugaðar breytingar í Áskaffi - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga
Breytingar eru í uppsiglingu hjá Byggðasafni Skagfirðinga, en Auður Herdís Sigurðardóttir, sem rekið hefur Áskaffi á safnssvæðinu í Glaumbæ um árabil, hefur ákveðið að snúa sér að öðrum verkefnum.
Áskaffi hefur verið til húsa í svokölluðu Áshúsi, sem flutt var á safnssvæðið í Glaumbæ árið 1991. Húsið var byggt í Ási í Hegranesi á árunum 1883-1887 af hjónunum Sigurlaugu Gunnarsdóttur (1828-1905) og Ólafi Sigurðarsyni (1822-1908). Aðalsmiðir hússins voru, ásamt Ólafi bónda; Þorsteinn Sigurðsson trésmiður (f. 1859, d. í Vesturheimi) en hann varð einkum þekktur fyrir kirkjubyggingar sínar, m.a. Sauðárkróks- og Silfrastaðakirkju; Eiríkur Jónsson (1863-1948) í Djúpadal sem byggði fjölmörg timburhús í Skagafirði; Guðjón Gunnlaugsson (1862-1945) í Vatnskoti, trésmiður; Sveinbjörn Sveinsson (1855-1939) hleðslumaður og bóndi í Hornbrekku á Höfðaströnd og Hallgrímur Friðfinnsson, smiður, sem lítið er vitað um.1
Hjónin Ólafur og Sigurlaug voru miklir framfarasinnar og unnu ötullega að ungmennauppfræðslu, með námskeiðshaldi fyrir bæði drengi og stúlkur. Ýmsar tækninýjungar voru teknar í notkun í Ási, bæði er viðkomu heimilisiðnaði og búskap. Þar á meðal má nefna vindmyllu til að mala korn, fótstiginn hverfistein, eldavél, spunavél og hraðskyttuvefstól. Árið 1869 boðaði Sigurlaug konur til fundar í Ási til að ræða stöðu kvenna, sjálfstæðis- og hreinlætismál og lagði fundurinn grunninn að stofnun kvenfélags Rípurhrepps, elsta kvenfélags á Íslandi. Sigurlaug var mikilsvirt hannyrðakona og leiðbeindi fjölmörgum ungum konum í handverki á heimili sínu. Hún stofnaði fyrsta kvennaskóla héraðsins í Ási árið 1877.
Í húsinu var búið fram til 1977, sem síðan stóð autt í rúman áratug. Áhugi fyrrverandi safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga, Sigríðar Sigurðardóttur og Þórs Magnússonar, þjóðminjavarðar á húsinu leiddi til þess að Magnús Jónsson (1943-2013) bóndi í Ási bauðst til að gefa byggðasafninu húsið ef það nýttist í Glaumbæ. Á árunum 1989-1990 var húsið undirbúið fyrir flutning, hlaðinn var kjallari fyrir það á safnssvæðinu í Glaumbæ og snemma vors 1991 var því lyft á bíl og því ekið að Glaumbæ þar sem því var komið fyrir. Þá um vorið hófst viðgerð á húsinu, en það var Trésmiðjan Borg sem tók að sér verkið með Braga Skúlason í broddi fylkingar. Haldið var í alla þá húsviði sem hægt var og nýjum viðum splæst í þar sem þurfti, en utanhússklæðninguna þurfti að endurnýja að stórum hluta. Handavinnan var gífurleg og tók viðgerðin sinn tíma.
Viðgerðum á húsinu lauk vorið 1994. Í júní það ár, þegar lokið var við að mála húsið, kviknaði í því sennilega út frá málningartuskum sem gleymst höfðu á stigapalli að austan. Eldurinn olli miklum skemmdum, austur- og norðurherbergin sviðnuðu og húsið fylltist af reyk og sóti. Litlu mátti muna að allt húsið brynni. Aftur var hafist handa við viðgerðir og málningarvinnu. Hver einasta spýta var skafin og gert við mestu skemmdirnar. Húsið var klárt á ný vorið 1995.
Með opnun Áshúss skapaðist betri aðstaða til að taka á móti gestum safnsins, fyrir safnbúð, skrifstofu safnstjóra og sýningar. Hluti miðhæðar var leigð út til kaffistofureksturs, en að honum stóðu nokkrar nágrannakonur sem kölluðu kaffistofuna Áskaffi. Safnstjóri fór fram á að veitingarnar myndu endurspegla tíðaranda hússins og tækju mið af góðgæti sem boðið var upp á á skagfirskum heimilum um og fyrir miðja 20. öld. Meðal kaffistofurekenda fyrstu árin var Ásdís Sigurjónsdóttir á Syðra-Skörðugili sem sá um reksturinn til aldamóta 2000. Þá keypti A. Herdís Sigurðardóttir frá Stóru-Ökrum reksturinn. Herdís, eins og hún er alltaf kölluð, hefur rekið Áskaffi í hartnær tvo áratugi. Hún hefur boðið upp á ýmsar hefðbundnar kræsingar og góðgæti sem sannarlega hafa lífgað upp á matarupplifun safngesta.
Í sumar verður fyrirkomulag kaffistofunnar með breyttu sniði. Vegna heimsfaraldurs Covid-19 og fyrirhugaðrar lokunar safnssvæðisins þar sem borgað verður fyrir aðgang að safnssvæðinu, mun safnið sjálft reka kaffistofuna í Áshúsinu. Vert er að minna á að lögheimilisíbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar geta keypt aðgangsmiða á safnið sem gildir í eitt ár frá kaupum hans, óháð fjölda heimsókna. Stefnt er að því að halda áfram að bjóða upp á hefðbundið góðgæti og efla matartengda viðburði á vegum safnsins.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga þakkar Herdísi fyrir einstaklega gott og gefandi samstarf á liðnum árum og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.
@Inga Katrín D. Magnúsdóttir
Áður birst í 17. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.