Ásgeir sendir frá sér Time on My Hands

Ásgeir. MYND AF HEIMASÍÐU ÁSGEIRS
Ásgeir. MYND AF HEIMASÍÐU ÁSGEIRS

Stórkanónur íslenskrar tónlistar eru skriðnar undan covid-teppinu og búnar að kasta efnilegum afurðum út í netheima. Björk er mætt til leiks með Fossora, Of Monsters and Men með Tíu og svo er frægasti fulltrúi Laugarbakka í Vestur-Húnavatnssýslu, hann Ásgeir Trausti, mættur með sína fjórðu breiðskífu, Time on My Hands.

Fyrir tíu árum sendi Ásgeir frá sér Dýrð í dauðaþögn, sem kom einnig út á ensku undir nafninu In Silence. Velgengni plötunnar, og algjörlega óþekkts tónlistarmannsins, var ævintýri líkust og er platan sennilega til á öðru hvoru heimili á landinu. Önnur platan var Afterglow sem kom út 2017, Sátt kom út 2020 en einnig undir nafninu Bury the Moon þar sem lögin voru sungin á ensku. Og í síðustu viku kom svo Time on My Hands.

Fyrstu lögin sem fengu að hljóma af Time on My Hands voru hinu stórfínu Snowblind (eftir Ásgeir, Guðmund Kristinn Jónsson og Pétur Ben) og Limitless  (eftir Ásgeir og Pétur Ben) og í kjölfarið fylgdu Like I Am (eftir Ásgeir og Júlíus Róbertsson) og Borderland (eftir Ásgeir, Guðmund, Einar Georg Einarsson og Þorstein Einarsson). Titillagið, Time on My Hands og Vibrating Walls (eftir Ásgeir og Pétur Ben) eru falleg en hjá blaðamanni Feykis er Waiting Room (eftir Ásgeir, Einar, Pétur Ben og Þorstein) í uppáhaldi. Algjör perla.

Ásgeir og félagar hans eru á svipuðum slóðum og áður á Time on My Hands sem er góður staður að vera á. Hér er akústískur fílingur hrærður rólega saman við pínu teknótakta. Stöku sinnum er sparlega farið með brass og yfir öllu svífur þessi einstaki viðkvæmi falsettusöngur Ásgeirs. Lagasmíðarnar eru margar hverjar gullfallegar og útsetningarnar eru smart. Það má segja að tónlist Ásgeirs sé nýmóðins gamaldags – á góðan hátt.

Heimasíða Ásgeirs >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir