Ásgarður brotinn niður og endurbyggður
Nú standa yfir framkvæmdir við Ásgarð á Skaga-strönd en það er Borgarverk sem annast endurbyggingu bryggjunnar. Það mun fyrir löngu hafa verið kominn tími á þær. Verkið hófst í byrjun september og voru áætluð verklok í desember á þessu ári. Að sögn Baldurs Magnússonar, hafnarvarðar hjá Skagastrandarhöfn, er ljóst að þeim mun seinka verulega þar sem framkvæmdir hófust mjög seint en m.v. útboðsgögn er gert ráð fyrir 7-8 mánuðum í verkið.
Baldur segir að nýi Ásgarður verði 3,4 metrum breiðari en gamla bryggjan þar sem hún var breiðust en fremst mun muna 6,4 metrum. Lenging er óveruleg eða um 1,5 meter. Nýja bryggjan verður ekki hærri svo einhverju muni.
„Byggja þarf nýja bryggju þar sem sú gamla var orðin algerlega ónýt og hefur verið til fjölda ára, tré orðið fúið og byrjað að gefa sig, steypudekk sprungið og byrjað að molna og hrynja ofaní holrými,“ segir hafnarvörðurinn.
Útboðslýsing:
1. Brjóta og fjarlægja þekju og polla á núverandi bryggju.
2. Jarðvinna, uppúrtekt, fylling og þjöppun.
3. Rekstur á 106 tvöföldum stálþilsplötum og ganga frá stagbitum og stögum.
4. Steypa 147 m langan kantbita með pollum, kanttré, stigum og þybbum.
„Það þarf semsagt að brjóta niður og hreinsa upp gömlu bryggjuna svo reka niður 106 12 m stagað stálþil umhverfis gömlu sem verður síðan fyllt upp í aftur og steypt yfir. Svo verður hún skreytt með nýjum pollum, dekkjamottum og tilheyrandi.“
Tíminn náði í skottið á Ásgarði
Baldur segir að Ásgarður hafi upphaflega verið byggður kringum 1937. „Hann var svo stækkaður til þess að koma upp síldarlöndunarkrananum og færiböndum frá honum og upp í síldarverksmiðju 1945-46. Um tíu árum síðar var kanturinn breikkaður.
Kraninn var síðar rifinn niður þegar stærri skip fóru að koma í höfn á Skagaströnd enda var hann þá hættur að þjóna tilgangi sínum og byrjaður að skapa hættu fyrir nýrri og stærri skip. „Kanturinn þjónaði sem löndunarbryggja í fjölda ára eftir að síldin hvarf og skilaði vel sínu hlutverki sem slíkur alveg fram yfir aldamót. Eftir aldamót fór hins vegar verulega að fjara undan kantinum og skemmdir að koma fram, gerðar voru tilraunir til viðgerða en tíminn var búinn að ná í skottið á kantinum og honum var lokað fyrir þyngri umferð síðustu ár og aðeins léttari bátar lágu við kantinn,“ segir Baldur að lokum.
- - - - -
Unnið að síldarlöndun úr Höfrungi AK 10 á Skagaströnd í júlí 1961.Ljósmyndari: Guðmundur Guðnason. Myndin er fengin af netsíðu Ljósmyndasafns Skagastrandar. Greinin birtist áður í 35. tölublaði Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.