Ásdís Aþena gefur út lagið Adriana

Ásdís Aþena. AÐSEND MYND
Ásdís Aþena. AÐSEND MYND

Það er alltaf fjör á Spotify og þá ekki hvað síst á föstudögum þegar ný lög festast á Spottann. Í gær kom út nýtt lag með hæfileikabúntinu Ásdísi Aþenu frá Hvammstanga en lagið kallast Adriana og er hressilegt og grípandi.

Einhverjir myndu jafnvel dirfast að segja að það svífi svolítil Júróvisjón-stemning yfir vötnum. Lagið er í það minnsta talsvert öðruvísi en lögin á EP-plötu Ásdíar Aþenu, Break Apart, sem kom út í fyrra en þar var drama og depurð einkennandi.

Höfundur lagsins er Guðmundur Helgason sem einnig er frá Hvammstanga. Í færslu á Facebook segir hann þetta vera fyrsta alvöru tónlistarsamvinnuverkefnið sem hann hefur tekið þátt í. „Lagið samdi ég í fyrra, í vor fékk ég Jacky Garratt til þess að semja texta og Stephanie Nicole Be til þess að hjálpa með melódíuna. Ásdís Aþena var síðan fengin til þess að syngja demó að gamni, það kom svo vel út að það var ákveðið að hún skyldi bara gefa út lagið. Sæunn Anna Sæmundsdóttir syngur bakraddir í laginu af mikilli íþrótt,“ segir Guðmundur og bætir við: „Þetta lag á vel við núna þegar Pride vikan er að hefjast, er svona girl-meets-girl dæmi, ólgandi af þrá og löngunum. Ekki spillir eitís áferðin yfir öllu saman.“

Hægt er að hlusta á lagið á Spotify en þar er Ásdís undir nafninu Asdis Athena > https://open.spotify.com/album/65QrZMYd1yWO5DE6meByJy?fbclid=IwY2xjawEaLTtleHRuA2FlbQIxMQABHb1SWSO-Y2l69w5OaJntDI62E2ftdVP7Hk0F2dUqi-Px0bIlVuKDVTKy7w_aem_hb6-d6tQ2-SHCil0ZyRVgw

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir