Ársund slær í gegn
Nokkrir fræknir kappar hafa stundað það í sumar að synda í ám á Norðurlandi vestra, sér til skemmtunar og dægradvalar. Einn forsprakkinn er Finnur Eyfjörð en hann sagði í samtali við Dreifarann að þetta væri afar skemmtileg íþrótt. –Við höfum alltaf heyrt talað um sjósundið og af hverju má ekki synda í ánum líka? Við höfum farið víða hér á svæðinu og dýft okkur í ár, stórar og smáar og synt upp eftir þeim, sagði Finnur.
Hafa þeir félagarnir m.a. synt í Héraðsvötnunum í Skagafirði, Blöndu, í Laxá á Ásum og Víðidalsánni, en þeir lentu einmitt í smá óhappi í Laxá á Ásum. –Já við stungum okkur af brúnni og niður í ána, en áttuðum okkur ekki á því að hún var ansi vatnslítil og mörðumst talsvert og brotnuðum lítillega þegar við lentum í ánni, sagði Finnur um þetta óheppilega atvik. En hvað segja laxveiðimenn í ánum? –Þeir hafa tekið þessu misjafnlega, flestir illa, einn okkar lenti t.d. í því að fá öngul í rassinn, þegar við vorum að synda í Blöndu og það var ekki þægilegt fyrir hann. En við reynum að gera þetta á þeim tímum sem laxveiðimenn eru ekki í ánum og það hefur tekist ágætlega nema þarna einu sinni, sagði Finnur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.