Árskóli hlýtur tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna 2024

Séð yfir Árskóla á Sauðárkróki.
Séð yfir Árskóla á Sauðárkróki.

Íslensku menntaverðlaunin eru árleg viðurkenning fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Tilnefningar voru kynntar fyrr í dag. Verðlaun eru veitt í fimm flokkum en í flokknum þar sem veitt eru verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur var Árskóli á Sauðárkróki í hópi þriggja aðila sem tilnefndir voru.

Í þeim flokki eru veitt ein verðlaun til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Í umsögn um tilnefningu Árskóla segir að skólinn sé tilnefndur „...fyrir forystu um fjölbreytt og faglegt skólaþróunarstarf sem hefur verið öðrum skólum góð fyrirmynd.“ Auk Árskóla voru Fellaskóli í Reykjavík og Listasafn Íslands tilnefnd.

Aðrir flokkar sem veitt eru verðlaun fyrir eru; Framúrskarandi kennari, Framúrskarandi þróunarverkefni, Framúrskarandi iðn- og verkmenntun og loks eru veitt hvatningarverðlaun til einstaklings, hóps eða samtaka.

Verðlaunin eru samstarf Embættis forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytis, innviðaráðuneytiðs, Félags um menntarannsóknir, Grunns – félags stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn þann 5. nóvember á Bessastöðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir