Árskóli á Tenerife
Laugardaginn 4. júní lagði 94 manna hópur frá Árskóla/tónlistarskólanum í náms- og kynnisferð til Tenerife. í hópnum voru 66 starfsmenn, þrír starfsmenn FNV og 25 makar. Þessar ferðir eru fastur þáttur í starfsemi Árskóla sem varð til 1998 við sameiningu Barna- og Gagnfræðaskólans á Sauðárkróki. Þá var strax sett á stefnuskrána að nýta endurmenntunarsjóði stéttarfélaganna til þess að kynnast öðrum skólum bæði innanlands og erlendis.
Í Barnaskólanum var komin hefð á eyjaferðir í lok skólaárs og hefur þeirri hefð verið við haldið í Árskóla. Heimsóttar hafa verið allar eyjar með fasta búsetu á Íslandi auk margra annarra. Oft hefur eyjaferð einnig verið náms- og kynnisferð. Markmið ferðanna er auk fræðslu, að auka víðsýni starfsfólks. Reynslan hefur kennt okkur að það að skoða og fræðast á vettvangi er mjög öflug endurmenntun. Oft sjáum við eitthvað sem við getum nýtt í okkar skólastarfi og styrkt okkur í því sem við erum að vinna að. Þá eru þessar ferðir frábærar fyrir starfsandann og samstöðuna í hópnum. Ferðin til Tenerife var áttunda skólaheimsóknin erlendis. Áður höfum við heimsótt Edinborg, Boston, Bournemouth, Kraká, Augsburg, Glasgow og Köge.
Þegar umræða hófst um eyjaferð/náms- og kynnisferð vorið 2022 kom eyjan vinsæla, Tenerife, fljótlega sterklega inn. Ástæður voru nokkrar. Við tónlistarskólann/Árskóla starfar kennari frá Tenerife. Í nokkrum skólum á Tenerife er mikil áhersla lögð á körfubolta, tónlist, jarðfræði og listir. Joaquim De la Cuesta González, kennari við Tónlistarskóla Skagafjarðar sem kemur frá Tenerife, tók mjög vel í að aðstoða okkur við skólaheimsóknir. Síðast en ekki síst var mikilvægt fyrir starfsfólkið að sjá notalega tilbreytingu framundan eftir mikið álag vegna covid síðustu tvö árin. Um undirbúning, skipulag og fararstjórn sáu Óskar G. Björnsson og Ólöf Hartmannsdóttir ásamt Joaquim. Upplýsingafundir um skipulag og framvindu undirbúnings ferðarinnar voru síðan reglulega með starfsfólkinu í vetur. Samið var við Tenerife-ferðir um að útvega flug, gistingu og ferðir á Tenerife. Það reyndist vera góð ákvörðun.
Heimsóknir í SOS barnaþorp og árshátíð Árskóla
Þegar við lentum á Tenerife tóku á móti okkur fararstjórar frá Tenerife ferðum og voru tveir þeirra hreinræktaðir Skagfirðingar, Anna Birna Sæmundsdóttir frá Syðstu-Grund og Auðunn Bergsveinsson frá Sauðárkróki (Nonni í Nesi afi hans). Sunnudagurinn fór í að taka sólarhæðina og átta sig á staðháttum. Við dvöldum á hóteli á Adeje ströndinni sem er á suðurhluta eyjunnar. Skóladagskráin var hins vegar í Santa Cruz, höfuðstaðnum á norðurhluta eyjunnar. Því þurftum við að fara snemma á morgnana í klukkutíma rútu-ferð og vorum farin að þekkja leiðina vel. Á mánudeginum var haldið í fyrstu skólaheimsóknina þar sem heimsóttur var 2200 nemenda skóli í Santa Cruz. Þar fékk hópurinn kynningu á starfsemi skólans og gafst tækifæri til að ræða við starfsmenn skólans um skólastarfið. Í þessum skóla er mikill körfuboltaáhugi sem vakti að sjálfsögðu athygli og áhuga hjá Sauðkrækingum. Á þriðjudeginum voru heimsóknir á fræðsluskrifstofu/kennslumiðstöð í Santa Cruz auk heimsóknar í tvo skóla. Í báðum skólunum var mikill áhugi á að fara í samstarf við okkur á grunni Erasmus verkefna. Er mjög líklegt að það verði að veruleika þar sem starfsmenn þar hafa ásamt okkur mikla reynslu í Erasmusverkefnum. Þennan dag var einnig farið í heimsókn í SOS barnaþorp þar sem hópurinn fékk fræðslu um starfsemina og þær aðferðir sem notaðar eru til styrkja börn og fjölskyldur þeirra til betra lífs.
Miðvikudaginn notaði hópurinn meðal annars til að heimsækja La Laguna sem er þorp á heimsminjaskrá UNESCO. Um leið og þorpið var skoðað prófaði hópurinn kennslutækni gamification. Í því felst að leysa ýmis konar þrautir í farsímanum um leið og fræðst er um staðinn, sögu hans og menningu.
Formlegri dagskrá lauk síðan á miðvikudagskvöldið með árshátíð skólans en vegna covid hafa tvær síðustu árshátíðir fallið niður. Því má segja að þessi árshátíð hafi verið ein fyrir þrjár. Hafði starfsfólk undirbúið fjölbreytt skemmtiatriði að vanda. Endað var með því að dansa úti í garði. Ekki það sem við erum vön. Óhætt er að segja að árshátíðin hafi verið góður endapunktur á vel heppnaðri ferð.
- - - - -
Aðsend grein en höfundar hennar voru fararstjórar í ferðinni.
Myndirnar teknar af ferðalöngunum.
Greinin birtist í 28. tölublaði Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.