Arnar Geir gerði sér lítið fyrir og sigraði í sínum riðil í pílunni

Arnar Geir í spjalli hjá Dart.is að leik loknum í gærkvöldi. SKJÁSKOT
Arnar Geir í spjalli hjá Dart.is að leik loknum í gærkvöldi. SKJÁSKOT

Keppni í Úrvalsdeildinni í pílukasti hófst á Bullseye við Snorrabrautina í Reykjavík í gærkvöldi en þá kepptu þeir fjórir kappar sem skipa riðil 1. Nýlega stofnuð pílu- og bogfimideild Tindastóls átti þar einn keppanda því Arnar Geir Hjartarson, sem fór að daðra við pílurnar fyrir tveimur árum, var mættur til leiks. Hann stimplaði sig rækilega inn því kappinn gerði sér lítið fyrir og sýndi stáltaugar þegar hann sigraði alla þrjá andstæðinga sína í riðlinum; tvo landsliðsmenn og núverandi landsliðsþjálfara.

Arnar Geir, sem er 27 ára og sonur Hjartar Geirmunds og Katrínar Gylfa og kannski best þekktur úr golfinu, sagðist í viðtali við Dart.is hafa verið stressaður síðan boðið um þátttöku barst en þegar hann mætti svo á Bullseye í gærkvöldi leið honum mjög vel og stressið hvarf. Það var í það minnsta ekki að sjá að það hefði slæm áhrif á Tindastólsmanninn að vera að keppa í pílu í fyrsta skipti í beinni útsendingu á Stöð2Sport.

Hann byrjaði á að sigra Hörð Þór Guðjónsson úr Pílufélag Grindavíkur 3-1, sigraði síðan Kristján Sigurðsson úr Pílukastfélagi Reykjavíkur og tryggði síðan fyrsta sætið í riðlinum og miðann á úrslitakvöldið með 3-1 sigri á Pétri Rúðrik Guðmundssyni frá Pílufélagi Grindavíkur.

Þess má til gamans geta að Pétur þessi Rúðrik lék veturinn 1995-1996 með liði Tindastóls í körfunni, spilaði 31 leik og gerði í þeim 315 stig en annars spilaði hann með liði Grindvíkinga.

Alls eru fjórir riðlar í Íslandsmótinu og fer keppni í riðli 2 fram nk. miðvikudagskvöld. Sigurvegarar í hverjum riðli tryggja sér þátttöku á úrslitakvöldinu sem fer fram í byrjun desember. Arnar Geir segir að nú taki við stífar æfingar fyrir úrslitakvöldið. „Ég get ekki beðið eftir að komast aftur hérna upp á svið, þetta var ógeðslega gaman!“ sagði kappinn í viðtali við Dart.is. Svo er bara að Tindastólsfólk mæti á Bullseye á úrslitakvöldið og styðji sinn mann.

Hlekkur á frétt a Dart.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir