Arnar Geir fór með sigur af hólmi í Kaffi Króks mótaröðinni
Kaffi Króks-mótaröð Pílukastfélags Skagafjarðar lauk í gærkvöld en pílum var kastað af miklum móð ein átta þriðjudagskvöld en fyrsta mótið fór fram um miðjan febrúar. Fyrsta sætið á mótinu hreppti Arnar Geir Hjartarson með 118 stig, Þórður Ingi Pálmarsson varð annar með 115 stig og þriðji Pálmar Ingi Gunnarsson en náði í 77 stig. Þeir fengu allir vegleg verðlaun í boði Kaffi Króks.
Á lokakvöldinu hafði Þórður Ingi betur gegn Hallbirni Björnssyni í úrslitaleik og Ingvi Þór bar sigurorð af Jóni Oddi í leik um þriðja sætið.
Arnar Geir og Þórður Ingi skiptust á um að hafa forystu í mótinu framan af en Þórður missti af sjötta og sjöunda keppniskvöldi og þá tryggði Arnar sér sigurinn. Hann gat leyft sér að missa af lokakvöldinu en Þórður krafsaði þó í hælana á honum þannig að aðeins munaði þremur stigum þegar upp var staðið. Báðir unnu þeir félagar fjórar keppnir og hleyptu ekki öðrum í toppsætið.
Fram kemur í frétt á Facebook-síðu Pilukastfélags Skagafjarðar að 28 félagsmenn og konur tóku þátt í mótaröðinni og er þeim þakkað fyrir þáttökuna. Að sögn kunnugra hafa meðlimir félagsins tekið svakalegum framförum á þessum örfáu mánuðum síðan pílukastarar fóru að stunda æfingar og keppni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.