Alþingiskosningar

Nú þegar nokkrar vikur eru til alþingiskosninga bjóða margir nýir kandidatar fram krafta sína í þágu lands og þjóðar. Sumir setja stefnuna hátt og vilja tryggja sér öruggt sæti á framboðslistum flokkanna sem gæti komið viðkomandi á hið háa Alþingi. Eins og atvinnuástandið er á landinu um þessar mundir er það ekki óeðlilegt að sækjast eftir þokkalega vel launuðu opinberu starfi, sem undir flestum kringumstæðum, veitir viðkomandi atvinnuöryggi í 4 ár. Margir núverandi þingmenn virðast ætla að draga sig í hlé þannig að ljóst er það endurnýjunin verður mikil á nýju þingi.

 

Síðustu daga hafa frambjóðendur af Vesturlandi verið sérstaklega duglegir að koma á framfæri tilkynningu til fjölmiðla um framboð sín fyrir Norðvesturkjördæmi. Er það enda skiljanlegt því Vestlendingur ætti að eiga hvað mestu möguleikana á frama opinberri landsmálapólitík í krafti mannfjöldans a.m.k. miðað við hin tvö svæði kjördæmisins. Fleiri hafa þó áhuga á þingstörfum t.d. ágætur og fyrrverandi Samfylkingarmaður sem er nú nýgenginn í Framsóknarflokkinn. Hann höfðar til sifja sinna á Vestfjörðum hvar forfeður hans í beinan karllegg hafi verið í framboði fyrir flokkinn um áratuga skeið sem röksemd fyrir því að bjóða því kjördæmi krafta sína í staðinn fyrir Reykjavík þar sem viðkomandi hefur þó verið búsettur frá fæðingu (þótt það hjálpi að hann eigi frændur og frænkur í Skagafirði og konan hans ,,eitthvað” úr Borgarfirði). Ekki er þó einsdæmi að Reykvíkingar hafi setið á Alþingi fyrir landsbyggðina, langt í frá, og meira segja hafa nokkrir þeirra haft ágætt ,,landsbyggðarhjarta”.

 

Í dag eru 9 þingmenn sem sitja á Alþingi fyrir Norðvesturkjördæmi. Af þeim er eingöngu einn búsettur á Norðurlandi vestra, þ.e. Jón Bjarnason. Vestlendingar eiga fjóra og Vestfirðingar fjóra. Íbúafjöldinn fer nokkuð nálægt með því að skiptast þannig að Vesturland er u.þ.b. helmingur af mannfjölda alls kjördæmisins en einn fjórði skiptist jafnt á milli Vestfjarða og Norðurlands vestra.

 

Í ljósi ofangreinds vekur það nokkra furðu að eingöngu einn núverandi alþingismaður komi frá Norðurlandi vestra. Miðað við mannfjölda ættu fulltrúarnir að vera að lágmarki tveir á Alþingi. Það er ljóst í mínum huga að ef Norðurland vestra ætlar að bæta ,,árangur” sinn að þessu leyti þurfa Húnvetningar og Skagfirðingar að sameinast um sína fulltrúa framarlega á listum flokkanna til þess að eiga möguleika gegn ,,stærðinni” Vesturlandi og gegn hinni rómuðu vestfirsku samstöðu. Til þess að það megi verða heimamenn að snúa bökum saman þótt þeir búi sitthvorum megin við Þverárfjall en því miður eru fáar frægðarsögur til af samstöðu Skagfirðinga og Húnvetninga til þessa dags. Allt er þó hægt í hinu nýja Íslandi!

 

Það er nauðsynlegt að rödd fulltrúa Norðurlands vestra heyrist hátt og snjallt á næsta þingi. Svæðið hefur verið í mikilli vörn undanfarin misseri og íbúaþróun, aldurssamsetning og atvinnumál afar neikvæð og hvað verst á landsvísu. Að mínu mati er því nauðsynlegt að forystumenn allra flokka í Húnaþingi öllu og Skagafirði snúi bökum saman, sýni auðmýkt og styðji góða heimamenn til forystu á framboðslista allra flokkanna.

 

Guðmundur St. Ragnarsson,

lögfræðingur í Reykjavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir