Allir á völlinn - ÍR kemur í heimsókn í kvöld.

Tindastóll og ÍR mætast í kvöld á Króknum og hefst viðureign liðanna klukkan 19:15. Eins og staðan fyrir leikin er, eru þetta liðin í 8. og 9. sæti deildarinnar. Stólarnir eiga hinsvegar inni leik gegn Njarðvík sem verður leikinn á fimmtudaginn.

Leikurinn í kvöld er því mikilvægur, því ætli Stólarnir sér að fara í úrslitakeppnina þurfa leikir eins og þessi að vinnast. Gengi beggja liða hefur verið slakt undanfarið. Tindastóll vann FSu á útivelli á dögunum, en það er eini sigurinn í síðustu 7 leikjum í deildinni. ÍR byrjaði mjög illa í haust, en eftir fyrsta sigurleikinn sem var einmitt á móti Tindastóli, unnu þeir næstu fjóra leiki. Síðan hefur heldur hægt á þeim og aðeins einn sigur komið í hús.

Lið Tindastóls er örlítið breytt frá síðustu leikjum, en Axel Kárason hefur lokið jólaleyfi sínu og fór af landi brott eftir síðasta leik gegn Stjörnunni. Í hans stað er mættur Helgi Freyr Margeirsson frá Danmörku, en hann dvelur næstu mánuði á landinu og mun spila út tímabilið með Stólunum.

Hópurinn í kvöld er því þannig skipaður: Ísak, Svavar, Helgi Freyr, Óli, Flake, Hreinn, Halldór, Einar Bjarni, Friðrik og Helgi Rafn.

Fyrir leikinn í kvöld verður mínútu þögn til minningar um Óttar Bjarnason, fyrrverandi bakara á Sauðárkróki, sem lést á dögunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir