Álftagerðisbræður og 3. flokkur kvenna með söngskemmtun
Í gær voru haldnir fjölmennir tónleikar í sal Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Þetta var liður í fjáröflun 3.flokks kvenna vegna æfinga og keppnisferðar til Gautaborgar í sumar. Svona ferð kostar mikið og hafa stelpurnar og fjölskyldur þeirra staðið í ströngu undanfarna mánuði við að safna fyrir ferðinni.
Álftagerðisbræður lögðu sitt að mörkum og báru uppi bráðskemmtilega tónleika sem voru afar vel sóttir. Stelpurnar tóku einnig nokkur lög en Rögnvaldur Valbergsson stjórnaði ágætum kór þeirra. Þess má til gamans geta að Pétur Pétursson á barnabarn í hópi stúlknanna og eins Rögnvaldur Valbergsson. Pétur hafði á orði að ef stelpurnar spiluðu fótbolta eins vel og þær syngdu næðu þær langt á fótboltavellinum.
Á heimasíðu Tindastóls þakka aðstandendur stelpanna Álftagerðisbræðrum og Rögnvaldi fyrir að leggja sitt að mörkum til að gera þessa ferð að veruleika.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.