Alexandra Chernyshova hlaut menningarverðlaun Reykjanesbæjar
Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2020 fór fram fimmtudaginn 12. nóvember, með fremur óhefðbundnu sniði, en afhending fór fram á Facebook síðu Reykjanesbæjar. Að þessu sinni hlaut sópransöngkonan, tónskáldið og Hofsósingurinn Alexandra Chernyshova, verðlaunin fyrir framlag sitt til eflingar tónlistarlífs í Reykjanesbæ.
Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og fjórða sinn sem Súlan var afhent. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg.
Alexandra fluttist til Hofsóss árið 2003 ásamt Jóni Hilmarssyni eiginmanni sínum sem var skólastjóri Grunnskólans austan Vatna og þar voru þau um árabil. Hún lét til sín taka í menningarlífinu í Skagafirði og víðar, setti upp óperur, kenndi söng, stofnaði barnakór og kom fram á ófáum tónleikum. Hún hefur haldið uppteknum hætti eftir að þau hjón fluttu suður yfir heiðar.
Feykir óskar Alexöndru til hamingju með heiðurinn.
Heimild: Víkurfréttir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.