Akureyrarvaka um helgina í norðlenskri hitabylgju

Akureyringar bjóða til veislu um næstu helgi en Akureyrarvaka verður haldin dagana 30. ágúst - 1. september, með glæsilegum tónleikum á Ráðhústorgi, háskalegri Draugaslóð á Hamarkotstúni, Víkingahátíð og fleiru. Rétt innan við 80 viðburðir eru á dagskrá og enn eru að bætast við fleiri atriði. Veðurstofan gerir ekki ráð fyrir sólríkum dögum á Akureyri en mini hitabylgju virðist þó vera spáð, 18 gráður á laugardeginum og ætti því að vera í lagi að vera í stutterma en vissara að hafa regnstakkinn innan seilingar.

Vikublaðið segir af því að hátíðarhöldin munu hefjast formlega með Rökkurró í Lystigarðinum kl. 20.30 á föstudagskvöldið þar sem boðið verður upp á ýmis tónlistaratriði, dans og rómantíska stemningu í upplýstum garðinum fram eftir kvöldi.

„Í þéttskipaðri dagskrá helgarinnar má einnig finna Draugaslóð á Hamarkotstúni, tónleikaröðina Mysing í portinu á bak við Listasafnið, götukörfuboltamót í Garðinum hans Gústa, Pálínuboð í Fálkafelli, Víkingahátíð á MA-túninu, Taekwondo sýningu og Fornbílasýningu í Listagilinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Líf og fjör verður í Menningarhúsinu Hofi alla helgina og má til að mynda nefna dansviðburði sumarlistamanns Akureyrar, Leikhúslög barnanna í boði Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Sönghópinn Ómar og hina einu sönnu Unu Torfa auk þess sem Ljóðajazz fer fram á sunnudagskvöldinu í Hofi en þar koma saman íslenski rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson og danska tónskáldið Dorthe Höjland.

Hápunktur Akureyrarvöku er án efa stórtónleikar á Ráðhústorgi á laugardagskvöldinu þar sem norðlenska hljómsveitin Skandall, Skítamórall, Una Torfa, Emmsjé Gauti og sjálfur Bubbi Morthens halda uppi fjörinu. Kynnir kvöldsins er leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.“

Það væri því ekki vitlaust fyrir íbúa á Norðurlandi vestra að bregða undir sig betri fætinum, ef frítími finnst, og skella sér á Akureyrarvöku á meintum höfuðstað Norðurlands, Akureyri.

Gestum er bent á að skoða alla dagskrána á akureyrarvaka.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir