Akrahreppur verður áfram kallaður Akrahreppur – Feykir spyr
Berglind Þorsteinsdóttir á Glóðeyri í Akrahreppi starfar sem safnstjóri hjá Byggðasafni Skagfirðinga, gift Guðmundi Stefáni Sigurðarsyni, minjaverði MÍ á Norðurlandi vestra, og eiga þau þrjú börn sem öll eru í Varmahlíðarskóla; Jónu Karítas 14 ára, Matthías 11 ára og Katrínu 8 ára.
Í tilefni sameiningarkosninga sem fram fara þann 19. febrúar nk. var nokkur kosningabragur á Feyki þessa vikuna líkt og í þeirri síðustu enda ærin ástæða til. Rétt til að heyra í hinum almenna borgara sendi Feykir, af handahófi, nokkrum einstaklingum úr sitthvoru sveitarfélaginu í Skagafirði spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins.
Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Skagafirði verði sameinuð? -Mér líst nokkuð vel á það. Mér skilst að skv. sveitarstjórnarlögum skuli stefnt að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1000 manns, til að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni. Það vantar talsvert upp á fjöldann hjá okkur í Akrahreppi. Þar sem þetta er stefna stjórnvalda tel ég þetta ekki vera spurningu um hvort við sameinumst heldur hvenær.
Hvað telur þú jákvætt? -Ég held að íbúar Akrahrepps muni ekki finna mikla breytingu dagsdaglega þar sem við sækjum flesta þjónustu til Svf. Skagafjarðar. Það jákvæðasta myndi ég hiklaust telja að þau fjárframlög sem renna til nýs sveitarfélags í gegnum Jöfnunarsjóðinn muni alfarið verða nýtt til að hraða uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð. Ég hlýja mér við þá tilhugsun að þá muni börnin okkar, og núverandi nemendur, njóta góðs af því. Einnig tel ég jákvætt að eitt sveitarfélag sé að vinna að skipulagsmálum fyrir allan Skagafjörð og berjast saman fyrir að koma málum í gegn, t.d. með tilliti til samgöngubóta innan alls fjarðarins og til Akureyrar o.s.frv. Annað jákvætt sem mér kemur til hugar er að við sem erum í Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar gætum þá loksins farið að veita Umhverfisverðlaun til fallegra bæja í Akrahreppi, það hefur nokkrum sinnum komið til tals á meðal okkar systra að við söknum þess að hafa þá ekki með - enda í Skagafirði.
Hvað neikvætt? -Þá get ég ekki lengur farið frítt í sund :)
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð? -Ég sé það ekki fyrir mér, nema að þá þarf ég að borga í sund :)
Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar skagfirðingar.is? -Já, aðeins. Ég sótti einnig íbúafund sem fór fram í Héðinsminni þann 26. október. Mér fannst fundurinn einstaklega upplýsandi og þær umræður sem sköpuðust voru mjög gagnlegar við ákvarðanatökuna.
Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu? -Nei, alls ekki.
Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála? -Það sem kemur einna helst til hugar er það sem kom fram á íbúafundinum í Héðinsminni að róðurinn sé að þyngjast hjá Akrahreppi við að sinna þeim lögbundnum verkefnum sem sveitarfélögum ber og standa undir auknum kröfum hvað það varðar, t.a.m. varðandi málefni fatlaðra, félagsþjónustu, lögbundna skjalavörslu og farsældarlögin svo dæmi sé tekið. Einnig fannst mér mjög umhugsunarvert það sem fram kom á fundinum að kjörnir fulltrúar í Akrahreppi fá talsvert minna greitt, eða 15-25 % af viðmiðunarkjörum nefndar- og sveitarstjórnarmanna. Við viljum auðvitað getað boðið íbúum hreppsins upp á samskonar þjónustu og önnur sveitarfélög og vera samkeppnishæf.
Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita? -Þar sem við erum öll Skagfirðingar finnst mér liggja beinast við að það heiti Sveitarfélagið Skagafjörður. Akrahreppur verður áfram kallaður Akrahreppur líkt og aðrir hreppar í Skagafirði sem hafa sameinast í eitt sveitarfélag.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Kannski annað sem mér dettur í hug varðandi galla þess að hafa fámennan hrepp, það er að þá er erfiðara að finna fólk sem tilbúið er til að bjóða sig fram til sveitarstjórnarmála. Þess í stað er fólk kjörið sem hefur kannski hvorki tíma til að sinna því almennilega eða kærir sig endilega um það, ekki það að þetta fólk hafi ekki staðið sig vel og tekið þeirri áskorun, en mér finnst ekki sanngjarnt að setja fólk í þá stöðu. Það er jákvæðara þegar fólk er kjörið sem hefur gefið kost á sér til starfa. Mér finnst Hrefna Jóhannesdóttir hafa staðið sig stórkostlega vel sem oddviti Akrahrepps og ég dáist að því hvernig hún hefur tekist á við þetta krefjandi starf. Ég myndi gjarnan vilja sjá hana vinna áfram að málefnum íbúa hreppsins, sem og sveitarfélagsins alls, innan sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.