Aftur til fortíðar

Gísli Árnason

Fyrir komandi alþingiskosningar gefa framsóknarmenn út blað, sem ber nafnið Tíminn. Blað þetta og nafn er nokkurs konar afturhvarf framsóknarmanna til fortíðar.
Í fyrsta tölublaði þess fjallar Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins um efnahagsstjórn liðinna ára.

Steingrímur, sem alltaf hefur verið framsóknarmaður, telur að örlagaríkustu mistökin hafi verið gerð við einkavæðingu bankanna. Þeir hafi verið afhentir fámennum hópum fjárglæframanna. Og Steingrímur segir: “Það er þessi hópur græðgissjúkra einstaklinga, sem á stærstu sökina á hruni hins íslenska efnahagslífs.”

Ég er ekki frá því að Steingrímur fari nokkuð nærri því sanna í þessu máli. Hitt kemur á óvart hve afgerandi hann fer gegn flokksmönnum sínum, þeim Finni Ingólfssyni, Helga S. Guðmundssyni, Ólafi Ólafssyni og Þórólfi Gíslasyni sem voru í forustusveit framsóknarmanna við fyrrnefnda einkavæðingu.

Steingrímur nefnir ekki kvótakerfið og höfund þess, Halldór Ásgrímsson, eftirmann sinn á formannsstóli framsóknar, sem tengist ofangreindum aðilum m.a. í gegn um fyrirtækið Hesteyri. Því hefur verið haldið fram að kvótakerfið, sérílagi framsal aflaheimilda og eignfærsla auðlindarinnar hafi valdið miklu um brotlendingu efnahagslífsins.

Það er rétt hjá Steingrími að þessir einstaklingar, svokallaður S- hópur, hafa á undanförnum árum farið eins og eldur um akur íslensks fjármálalífs og engu eirt. Að baki þeim standa tugir fyrirtækja og einkahlutafélaga, sem sum hver eru komin í þrot eða á leið í þrot, þar sem milljarðar króna lenda á skattgreiðendum í gegn um bankakerfið, sem er nú í eigu íslenska ríkisins.

Allt var undir í þessum hrunadansi, almannaeigur og félög í almannaeigu svo sem Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga, nú Gift, en meðferð fjármuna þess sætir nú opinberri rannsók.

Það er því deginum ljósara að ábyrgð þessara aðila á bágri stöðu íslenskra heimila er mikil, þar sem pólitísk völd voru grímulaust notuð við upptöku almannaeigna.
Verkefni morgundagsins er því endurheimt þessara eigna að því marki sem hægt er og að gerendur sæti ábyrgð svo sem eðlilegt er í réttarríki.

Gísli Árnason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir