Áfrýjunardómstóll KKÍ dæmdi Haukum sigur
Niðurstaða áfrýjunardómstóls KKÍ liggur nú fyrir í litla svindlmálinu sem Haukar, sem sögðust ekki vilja kæra lögbrot Tindastólsmanna, kærðu engu að síður Tindastólsmenn fyrir að hafa teflt fram fjórum erlendum leikmönnum í enga sekúndu í bikarleik liðanna sem fram fór í október. Niðurstaða dómsins var á þá leið að Tindastóll hefði brotið regluna og er Haukum því dæmdur 0-20 sigur í leiknum, sem þeir töpuðu , og Tindastóll skal borgar 250 þúsund króna sekt.
Niðurstöður aga- og úrskurðarnefndar og áfrýjunardómstóls þurfa væntanlega ekki að koma á óvart þar sem reglan er skýr – hversu saklaust sem brotið var og hafði engar afleiðingar í leiknum. Þar sem leikmennirnir erlendu voru sannarlega fjórir inni á vellinum meðan leikmaður Hauka tók sín víti, þá telst leikurinn hafa verið í gangi þó ekki hafi liðið sekúndubrot af leikklukkunni.
Að margra, ef ekki flestra, mati er þessi regla, sem sett var í lög í sumar, með eindæmum illa ígrunduð og refsingin ekki í nokkru samræmi við alvarleika brotsins.
Í niðurstöðu áfrýjunardómstólsins kemur fram að dómurinn er endanlegur og bindandi fyrir málsaðila. Það er því næsta víst að Stólarnir eru úr leik í VÍS bikarnum þrátt fyrir að hafa unnið öruggan sigur á liði Hauka. Það vill svo skemmtilega til að liðin mætast í Subway-deildinni í kvöld kl. 20:15 á Ásvöllum – það gæti orðið eitthvað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.