Áfram Ísland!
Halldóra Sverrisdóttir í Víðidal hefur lengi verið einhver ötulasti stuðningsmaður íslenska handboltalandsliðsins. Hún á til dæmis búninga með nöfnum allra markvarða íslenska landsliðsins frá því að Óli Ben stóð í markinu og nú heldur hún mest upp á Björgvin Pál markvörð. En Dóra hefur áhyggjur af landsliðinu sem er á leið á Ólympíuleikana í London.
Hvað er í gangi Halldóra? -Þetta er bara hræðilegt ástand á strákunum mínum. Þeir eru bara allir eitthvað svo meiddir.
Núnú? -Já, hann Snorri minn Guðjónsson er með sinaskeiðabólgu og getur ekki gripið boltann, Aron er alveg frá í öxlinni, Guðjón Valur hefur bara lítið geta æft , ég held það séu hnémeiðsli, og Ólafur er orðinn svo gamall. Og ég hef svo miklar áhyggjur af honum Alexandri Pettersyni, hann hlífir sér aldrei, alltaf á fullri ferð.
Hver segir þetta? -Nú hann Guðmundur minn.
Maðurinn þinn? -Neineineinei, Guðmundur landsliðsþjálfari. Ég hef bara áhyggjur af honum, hann er svo daufur út af þessu öllu og svo er hann að hætta.
En eru þetta ekki bara einhverjar fyrirfram afsakanir ef allt fer á versta veg hjá liðinu? -Ha? Nei, nú dámar mér vinur. Hann Guðmundur minn, hann er nú ekki þannig, þetta er svo yndislegur maður. Hann er bara heiðarlegur og ég sé, ég sé hvað hann er áhyggjufullur blessaður maðurinn.
En Dóra, er ekki aðalatriðið á Ólympíuleikunum að vera með? -Vera með? Hvaða vitleysa er þetta maður. Mér finnst þú nú bara taka þessu ansi létt. Þú kannski heldur ekkert með Íslandi? Heldurðu kannski með... með DÖÖÖNUM?!?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.