Áfram gakk!!!! :: Áskorendapenninn Ragnhildur Haraldsdóttir, varaoddviti Húnavatnshrepps

Þann 19. febrúar síðastliðin var ákveðið af íbúum tveggja sveitarfélaga að stíga mikilvægt skref, skref sem þótti af mörgum íbúum of stórt og ekki tímabært að stíga, ekki fyrir svo mörgum árum. Sameining sveitarfélaganna Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar og hins vegar Akrahrepps og Sveitarfélagins Skagafjarðar mun verða að veruleika og sjálfsagt, eins og með margt annað, sýnist sitt hverjum.

Tel ég að með þessari ákvörðun íbúa muni sveitarstjórnarstigið eflast til muna á Norðurlandi vestra, með því að fækka fámennum, en þó svipríkum, sveitarfélögum úr sjö niður í fimm. Sveitarfélögin verða vonandi betur í stakk búin að sinna þeirri lögbundnu þjónustu sem þeim ber að inna af hendi og gott betur. Við vitum að rekstrarforsendur sveitarfélaga hafa og munu breytast á næstu misserum.

Ríkið hefur á undanförnum árum og áratugum verið að færa ákveðna þjónustu og málaflokka yfir á herðar sveitarfélaganna og oftar en ekki, hafa ekki fylgt nægjanlegir fjármunir með, sem hefur gert fámennari og minni sveitarfélögum erfiðara fyrir. Ég tel að allt of mikil orka hafi farið í það í gegnum tíðina af hálfu sveitarstjórnarfulltrúa að meta, hvort að skynsamlegt væri að fara þessa leið, sem ég tel að hafi staðið okkar samfélagi fyrir þrifum á svo mörgum sviðum en þó ekki síst hvað varðar atvinnu- og byggðamál og innviðauppbyggingu.

Nú er það að baki og ekkert í stöðunni annað en að halda áfram ótrauð og halda áfram berjast fyrir okkar hagsmunamálum sem eru m.a að fjölga atvinnutækifærum, bæta og laga innviði samfélagsins með því að berjast fyrir betri samgöngum með lagningu bundins slitlags, klára lagningu ljósleiðara í þéttbýli, styrkja og auka burðargetu byggðarlínunnar frá Blönduvirkjun til þess að orkan geti nýst svæðinu til aukinnar atvinnuuppbyggingar og að tryggja það að Blönduósflugvöllur geti þjónað öryggishlutverki sínu þegar bráð veikindi eða alvarleg slys eiga sér stað.

Ég er vongóð um það að sameining muni efla og styrkja samfélagið á allan hátt og við verðum betur í stakk búin til að veita íbúum betri og skilvirkari þjónustu. Að sama skapi vona ég við getum laðað að ungt fólk sem sér þetta nýja samfélag okkar sem góðan kost til setjast hér að og ala upp börnin sín.

Ég veit og geri mér grein fyrir því að svona skrif hljómi klisjukennd í augum sumra, en hins vegar er það svo við erum ekkert að finna upp hjólið hvað þessi mál varðar og þurfum við ekki að horfa langt til að sjá hvaða jákvæða þróun hefur átt sér stað í þeim samfélögum þar sem íbúar hafa ákveðið að stíga þetta skref. Hafa má samt í huga að sú vinna sem framundan er við mótun og uppbyggingu á nýju sveitarfélagi mun ekki einungis vera dans á rósum heldur verður trúlega fullt af áskorunum sem menn og konur munu þurfa að leysa úr en það eru fá verkefni svo stór og veigamikil á sveitarstjórnarstiginu að ekki sé hægt að finna á þeim sameiginlegan flöt.

Það eru, og munu alltaf verða, áskoranir sem þarf að leysa úr þegar þéttbýli og dreifbýli sameinast og því er mikilvægt að ný sveitarstjórn skipi breiðum hópi fólks sem kemur alls staðar frá í nýju sveitarfélagi. Það er í raun þannig að það er okkur í sjálfsvald sett hversu mikil áhrif dreifbýlið vill hafa í nýju sveitarfélagi en það mun ekki gerast nema að fólk sé tilbúið að bjóða sig fram á lista og sé reiðubúið að gefa kost á sér í nefndarstörf. Það er hins vegar ágætt að hafa það í huga að sá einstaklingur sem gefur kost á sér í sveitarstjórn þarf að hafa það hugfast að hann er fulltrúi alls samfélagsins en ekki tiltekins svæðis og ber að haga sinni vinnu og ákvörðun út frá því.

Það má með sanni segja að það séu spennandi tímar framundan við uppbyggingu og mótun nýs sveitarfélags, eins sem að styttist í sveitarstjórnarkosningar og verður áhugavert að sjá hvaða listar og einstaklingar munu bjóða fram, einstaklingar sem tilbúnir eru að vinna af heilindum fyrir samfélagið og eru fulltrúar alls samfélagsins. Áfram gakk!!!

Ragnhildur skorar á Ásdísi Ýri Arnardóttur, grunn-og framhaldsskólakennara, að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir