Af hverju ætti ungt fólk að kjósa Samfylkinguna?
Samfylkingin er með sterka ungliðahreyfingu sem unnið hefur gagngert að málefnum ungs fólks. Samfylkingin hefur einbeitt sér að velferðarmálum og menntamálum og hefur alltaf sett hag almennings í fyrsta sæti.
Ungt fólk í dag virðist vera að vakna til vitundar um mikilvægi þess að ríkisstjórn hafi hagsmuni borgaranna að leiðarljósi, stjórn sem ekki lætur stjórnast af gróðahugsjón og peningahyggju heldur hugsar fyrst og fremst um velferð alls fólks. Þetta er það sem jafnaðarmenn allstaðar hafa alltaf haft að leiðarljósi.
Samfylkingin sem og ungliðahreyfing hennar hafa alltaf barist gegn skólagjöldum í opinbera skóla, það eru grundvallar mannréttindi að allir eigi þess kost að sækja sér góða menntun burtséð frá efnahag. Það eiga ekki að vera forréttindi hinna ríku að mennta sig og þessvegna hefur Samfylkingin alfarið hafnað þeirri hugmynd sem oft hefur komið upp í öðrum flokkum um upptöku skólagjalda, meðal annars við Háskóla Íslands.
Samfylkingin berst einnig fyrir því að greiðslur námslána verði mánaðarlegar sem og að grunnframfærsla LÍN verði gerð jafnhá grunnatvinnuleysisbótum. Þannig verði það gert eftirsóknarverðara að fara í nám fyrir þá sem misst hafa atvinnuna vegna efnahagsástandsins. Þannig fjárfestir ríkið í mannauðnum og býr til sterkara þekkingarsamfélag á landinu. Það er einnig hluti af stefnu Samfylkingarinnar að virkja og efla iðn- og tækninám þannig að ungmenni sem að finna sig ekki í bóknámi hafi fleiri möguleika til menntunar. Þetta leiðir til aukningar í tölu brautskráðra nemenda af framhaldsskólastigi og verður þess valdandi að færri hverfa frá námi.
Samfylkingin veit eins og aðrir flokkar að íslenska krónan virkar ekki en er sá eini sem veit hvað hann vill gera í málinu. Til að tryggja ungu fólki öruggari atvinnu í framtíðinni vill Samfylkingin semja við Evrópusambandið um aðild að sambandinu og upptöku evru. Með því fæst aðgangur að styrkjakerfi sambandsins fyrir hinar dreifðu byggðir og markaðsaðgangur fyrir landbúnaðar- og sjávarafurðir. Evran er leiðin til að tryggja að við lendum ekki aftur í sama rugli og með krónuna að undanförnu. Þess vegna vill Samfylkingin ná góðum samningum við ESB, um sjávarútvegsmál og annað og leyfa síðan Íslendingum að ákveða sjálfir hvað þeir vilja gera við samninginn.
Samfylkingin vill tryggja aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu, því það eiga ekki að vera forréttindi hinna ríku að fá læknishjálp. Hún vill að styrkjakerfi barnagreiðslna verði endurskoðað til að koma betur til móts við foreldra og að öllum börnum verði gert kleift að stunda íþrótta-, tómstunda- og félagsstarf sem og listnám án tillits til efnahags foreldranna.
Í stuttu máli vill Samfylkingin að öllum, óháð efnahag, búsetu, líkamlegu og andlegu heilbrigði eða öðrum þáttum, verði tryggt aðgengi að mennta- og heilbrigðisstofnunum landsins. Að allir fái jöfn tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi og gera það mesta úr því sem þeir geta. Mannréttindi verði ávallt höfð að leiðarljósi í stjórnun og jafnrétti viðhaft í orði sem á borði.
Samfylkingin berst fyrir heiðarleika, opnu samfélagi og gagnsærri og ábyrgri stjórnsýslu.
Baráttumál ungs fólks eru hjá Samfylkingunni.
Nýtum kosningaréttinn!
Ásdís Sigtryggsdóttir, vaktstjóri, skipar 15. sæti á lista Samfylkingarinar í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.