Ævintýralegur eltingaleikur við ísbjörninn í fyrra
Jón Sigurjónsson bóndi í Garði í Hegranesi hefur játað að hafa orðið birninum, sem fannst á skíðasvæðinu í Tindastóli í gær, að bana eftir ævintýralegan eltingaleik. Jón sagði blaðamanni Feykis söguna að baki drápinu og af hverju hann ákvað að grafa dýrið.
-Þegar ég heyrði að ísbjörn hefði sést við Bjarnavötnin í fyrra, ákvað ég að taka byssuna með mér og athuga hvort ég yrði var við dýrið. Ég fór upp úr klukkan fjögur um nóttna, segir Jón og aðspurður hvernig honum hafi dottið þetta í hug svarar hann að þegar bangsi gerði vart við sig á Þverárfjallinu fyrrr um sumarið þá varð hann fyrstur á svæðið með byssuna þó svo að hann hafi ekki skotið björninn þá. -Ég er veiðimaður í eðli mínu og tel það vera skyldu mína að fella þessi rándýr á Íslandi.
Jón fór keyrandi áleiðis á Skagann og þegar hann var kominn nokkuð framfyrir afleggjarann að skíðasvæðinu við Tindastól sá hann til bjarnarins við rætur fjallsins. -Það var bara hending að ég sá hann. Hann hafði hrakið upp gæsahóp og þegar ég leit í áttina þangað sá ég glitta í hvítt dýr. Ég svo sem var ekkert viss um hvort það var björn eða kind. Ég snéri bílnum við en þá var hann kominn í hvarf. Svo sé ég skyndilega þónokkuð fyrir framan mig hrossahóp á harðaspretti og fyrsta hugsun var að þetta hlýtur að vera ísbjörninn.
Ég bruna af stað og kemst á afleggjarann upp á skíðasvæðið og þá sá ég bansa alveg á kvínandi ferð suður eftir. En þegar hann verður var við bílinn sveigir hann af leið og fer upp gilið þar sem vegurinn liggur og inn að skíðasvæði. Ég hugsaði með mér að ef ég missi hann lengra en vegurinn nær þá er fær leiðin og stutt niður á Krók og hann búinn að vera á blússandi ferð.
Þannig að ég brunaði að skíðalyftunni og næ rétt að komast fyrir hann og er að teygja mig eftir byssunni en þá snýr hann við og fer sömu leið til baka. Ég náttúrulega bruna á eftir birninum og komst framfyrir hann og var tilbúinn með byssuna þegar hann birtist út úr gilinu. Þá skaut ég hann einu skoti og hann steinlá.
Að eltast við óðan ísbjörn hlýtur að vera sérstök tilfinning og líka fyrir vana skyttu. –Adrenalínið var alveg í hámarki og þetta jafnaðist á við það þegar ég skaut sel í fyrsta skiptið 12 ára gamall, segir Jón og það leynir sér ekki að þetta skytterí vekur upp skemmtilegar minningar. En svo kom að því að huga að afleiðingunum.
Af hverju hringdir þú ekki á lögregluna? –Ég var búinn að taka upp símann og ætlaði að pikka númerið inn en fór að hugsa um allt vesenið sem fylgdi birninum út á Skagatá. Ég get ímyndað mér það að ég hafi hugsað það hátt í klukkutíma hvað ég ætti að gera.
Á endanum fannst mér það besta lausnin að láta hann hverfa. Ég var með skóflu í bílnum og ákvað að grafa hann á staðnum og láta engan vita, segir Jón en viðurkennir að hafa ekki grafið nógu djúpt né heldur gert ráð fyrir því að tófan myndi fletta ofan af glæpnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.