Ævintýraleg vika í Berlín

Skagfirðingurinn Axel Kárason í leiknum á móti Spánverjum. Ljósm./Karfan.is
Skagfirðingurinn Axel Kárason í leiknum á móti Spánverjum. Ljósm./Karfan.is

Stuðningsmenn landsliðsins í körfu stóðu á öndinni er þeir fylgdust með Íslandi fara á kostum á Evrópumótinu í körfu, Eurobasket 2015, í Berlín 5.-10. september. Liðið hafði verið dregið út í svokölluðum „dauðariðli“ og kepptu á móti sterkustu liðum heims. Menn þorðu ekki að gera sér miklar væntingar en þrátt fyrir að íslenska liðið tapaði öllum leikjum sýndu þeir og sönnuðu að þeir áttu fullt erindi á meðal þeirra bestu. Feykir ræddi við landsliðsmanninn Axel Kárason frá Sólheimum í Blönduhlíð og Rúnar Birgir Gíslason, einn úr hópi skagfirskra áhorfenda, í umfjöllun um Eurobasket í Feyki vikunnar. 

„Tyrklandsleikurinn var svo lokalagið. Það var nokkuð lýsandi fyrir þennan hóp að þrátt fyrir að vera ákveðnir í því að sækja sigur og gefa okkur alla í leikinn, þá gátu menn ekki stillt sig um að vera með smávegis glens áður en við gengum inn á völlinn hálftíma fyrir leik (sem ég get því miður ekki rakið nánar hér) sem meira að segja fékk starfsfólk hallarinnar til að skella upp úr. Þegar inn á völlinn var svo komið, undir laginu „Leiðin okkar allra“ með Hjálmum, voru menn mættir vinnuna,“ segir Axel í viðtali við Feyki. 

Hann segir að sama hafi verið upp á teningnum í þeim leik og fyrstu tveimur, sú einkennilega tilfinning að vera svekktur með tap í framlengingu gegn jafn sterkri þjóð. Eftir æsispennandi leik, sem endaði með framlengingu, urðu úrslit 111-102 Tyrkjum í vil.

„Ef þessi leikur var lokalagið, má segja að stundin sem við áttum svo með áhorfendum eftir leikinn hafi verið uppklappslagið. Þó að þeir Íslendingar sem fylgdu okkur út hafi allir staðið sig eins og hetjur, þá var það auðvitað ennþá skemmtilegra fyrir mig að sjá Skagfirðinga í stúkunni,“ segir Axel.

Stuðningsmenn annarra liða farnir að öskra Áfram Ísland

 „Fólk sem er ekki endilega vant að sitja upp í stúku en á Ítalíuleiknum gerðist eitthvað, þetta fólk söng, gargaði, klappaði og hvatti eins og ein stór heild. Eftir það var ekki aftur snúið og hópurinn varð bara þéttari og þéttari, auk þess sem stuðningsmenn annarra liða voru farnir að öskra Áfram Ísland. Í lokaleiknum kom svo einn úr trommusveit Þjóðverja með sjö trommur til að lána Íslendingum, auk þess sem hann trommaði með,“ segir Rúnar þegar hann rifjar upp þær ólýsanlegu stundir sem þarna urðu til, þá sérstaklega þegar lagið „Ferðalok“ var sungið eftir síðasta leikinn. 

Viðtalið við Axel og Rúnar, auk fleiri mynda frá Rúnari, má sjá í Feyki vikunnar

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir