Ævintýraleg jól í Austurlöndum fjær

Hallgrímur Eymundsson og Rúnar Björn Herrera, ásamt föruneyti, fyrir utan Angkor Wat hofið í Kambódíu. Ljósm./úr einkasafni.
Hallgrímur Eymundsson og Rúnar Björn Herrera, ásamt föruneyti, fyrir utan Angkor Wat hofið í Kambódíu. Ljósm./úr einkasafni.

Í desember á síðasta ári fóru félagarnir Hallgrímur Eymundsson frá Saurbæ í Skagafirði og Rúnar Björn Herrera frá Sauðárkróki, ásamt Önnu Dóru kærustu Rúnars, í ógleymanlega skemmtiferð til Asíu þar sem þeir eyddu hátíðunum. Þau ferðuðust til Bangkok, Hua Hin og Chiang Mai í Norður Tælandi, og einnig til Kambódíu. Undirbúningurinn fyrir ferðina tók um hálft ár en þau voru erlendis í einn mánuð, heimsóttu ótal staði og héldu stífa dagskrá, milli þess sem þau nutu lífsins. Blaðamaður Feykis tók félagana tali og fékk að heyra ferðasöguna.

„Anna Dóra hafði verið skiptinemi í Tælandi og var lengi búið að dreyma um að fara með mér þangað. Við fórum að tala um þetta og ákváðum að skella okkur,“ útskýrir Rúnar, aðspurður um hvernig það kom til að þau ákváðu að skella sér í reisuna. Anna Dóra sá um skipulagningu ferðarinnar en taka þurfti tillit til aðgengismála þar sem félagarnir notast báðir við hjólastól. Þau nýttu sér ferðaskrifstofur sem sérhæfa sig í ferðum fyrir hreyfihamlað fólk, t.d. var það hreyfihamlaður maður sem rak gistinguna sem þau voru í á Chiang Mai og í Hua Hin gistu þau í húsi fatlaðs manns, en því fylgdi bílstjóri og bíll með rampi. Þá voru leiðsögumennirnir, sem fóru með þau út um hvippinn og hvappinn, með aðgengismál þeirra staða sem farið var á á tæru áður haldið var af stað.

„Við fórum talsvert víða. Vinnufélaga mínum, sem bjó í Tælandi í mörg ár, leist ekkert á þetta plan hjá okkur því honum fannst það alltof viðamikið. En þetta gekk allt upp stóráfallalaust,“ segir Hallgrímur og brosir.

Ferðalagið frá Íslandi tók 20 klukkustundir, flogið var í gengum Noreg beint til Bangkok í Tælandi og þaðan var þeim ekið á fyrsta viðkomustaðinn, Hua Hin. Þar segir Rúnar að sér hafi liðið sérlega vel, þar var veður gott, hvorki of heitt né kalt. „Ég elska sól og blíðu. Það var oft heitt en það er þægilegra en að vera of kalt,“ segir hann.

Hallgrímur lýsir Hua Hin sem fallegum strandbæ. Við ströndina er hátt fjall og á toppi þess eru gamlar hofrústir með ótal buddha styttum, en þar eru líka heimkynni tugþúsunda apakatta. Hallgrímur rifjar upp þegar þeir keyptu ís sem hægt var að kaupa við hofið og þá þyrptust að þeim ótal litlir apar sem vildu fá ís.

Viðtalið við Hallgrím og Rúnar í heild sinni má lesa í Jólablaði Feykis sem kom út sl. fimmtudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir