Ætlar að synda Grettissund á „hundasundi“
Geir Geirlaugsson suðumeistari í Reykjavík, ætlar að þreyta hið margfræga Grettissund næst þegar gefur í sjóinn, en búast má við því að það gerist jafnvel allra næstu daga. Geir sem er mikill sundgarpur og syndir í Sundhöllinni á hverjum morgni, hefur samt aldrei lært að synda.
-Nei það er rétt að ég hef aldrei lært að synda. Þegar manni var skellt í laugina hér í denn snérist málið um að bjarga sér bara og það gerði ég á svokölluðu hundasundi, sagði Geir við Dreifarann. –Hundasundið er ævaforn sundaðferð sem ég vildi halda í heiðri þó mér væri boðin sundkennsla og ég afþakkaði því kennslu í öðrum sundútfærslum. Ég fer á hverjum morgni í Sundhöllina í Reykjavík og syndi þar mitt hundasund og vek nú stundum athygli, sagði Geir.
En hvernig dettur mönnum í hug að þreyta Grettissundið á hundasundi? –Ég vil bara sýna fólki að ég geti synt þetta fræga sund án þess að kunna hefðbundin sundtök, sagði Geir. Geir sagðist hafa heillast af fréttum um bakara í Reykjavík sem skrapp norður og synti sundið eftir vinnu og var svo mættur í vinnu morguninn eftir. –En líklega verð ég aðeins lengur á leiðinni heldur en hann, þar sem hundasundið er nú ekki fljótsynt, sagði Geir að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.