Ætlaði að verða læknir | Helga Þóris

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Helga Þórisdóttir gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Í fyrsta lagi er ég hvorki háð pólitískum áhrifum né hagsmunahópum. Í öðru lagi hef ég víðtæka þekkingu og reynslu af lögum landsins. Sem forstjóri Persónuverndar hef ég varið friðhelgi einkalífs ykkar fyrir; stórfyrirtækjum og öðrum, sem ásælast viðkvæmar upplýsingar um heilsufar ykkar, fjármálastofnunum, sem hafa dreift upplýsingum um fjárhagsstöðu ykkar og menntastofnunum, sem hafa safnað upplýsingum um börnin ykkar í gegnum smáforrit í kennslustofum.

Þessi staðfesta mín hefur farið fyrir brjóstið á valdamiklu fólki á æðstu stöðum. Þannig hef ég meira að segja verið gagnrýnd af ráðherrum ríkisstjórnarinnar fyrir það eitt að fara að lögum.

Ef einhver er að hugsa um forsetann sem mikilvægan öryggisventil, þá á mitt erindi ekki að vefjast fyrir neinum! Ég hef komið fram fyrir hönd Íslands víða um heim og haldið alþjóðlegar ráðstefnur hér á landi. Ég á sæti í hinu Evrópska persónuverndarráði og hef komið því til leiðar að réttindi Íslands og annarra EES ríkja hafa styrkst í Evrópusamvinnu. Á okkar rödd er nefnilega hlustað þegar við vinnum heimavinnuna okkar vel!

Ég brenn fyrir hagsmunum Íslands og verð málsvari lands, þjóðar og menningar. Ég vil tryggja að þjóðin ráði sjálf ákvörðunum um mikilvægustu mál sín. Ég vil einnig nota rödd forseta til að tala fyrir eflingu íslenskrar tungu, góðri menntun allra og bættum hag aldraðra. Þetta er mitt erindi og þess vegna á fólk að kjósa mig í embætti forseta Íslands.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Mig skiptir miklu máli að forsetinn sé óháður, bæði pólitík og hagsmunaöflum, þannig að hann geti staðið með þjóð sinni, hvað sem á dynur. Með um 30 ára reynslu sem lögfræðingur, auk þess að tala nokkur tungumál, þá væri það mér sannur heiður og ánægja að geta staðið vaktina á Bessastöðum fyrir íslenska þjóð. Ég myndi ekki setja sjálfa mig á stall heldur þjóðina. Ég vil vera í lifandi sambandi við ykkur, fólkið í landinu. Hagsmunir ykkar, áhyggjur, öryggi og væntingar verða mitt leiðarljós. Í stuttu máli sagt, þá vil ég það besta fyrir íslenska þjóð. Þess vegna býð ég mig fram til embættis forseta Íslands.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að ferðast um landið og hitta fólk og heyra hvað það hefur að segja. Sem sagt, fá að heyra hvað liggur þyngst á hjarta landsmanna út um allt land. Nokkuð ljóst að við þurfum að vera duglegri að hlusta og heyra í fólki í hverri heimabyggð.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Í starfi mínu undanfarin ár hafa áskoranir verið margar og fjölbreyttar. Oft hefur mætt mikið á að láta stofnanir og fyrirtæki fara að þeim reglum sem gilda. Í persónulega lífinu hafa einnig komið upp áskoranir eins og hjá öðru fólki. Blessunarlega séð hefur engin þessara áskorana mótað líf mitt til frambúðar.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? - Í menntaskólanum við Sund árið 1986. Var þar á fyrstu hæðinni að teygja mig í skólastösku, en allir geymdu þær á ákveðnum stað undir stiga. Mætti þá augnaráði Theodórs Jóhannssonar (Tedda míns) og hugsaði, vá, þessi er sætur. Það tók okkur smá tíma að ná endanlega saman - en það hafðist að lokum, og við höfum verið gift í meira en 30 ár og eigum þrjú börn saman – og hund :)

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Læknir. Pabbi starfaði sem læknir á Landspítalanum allt sitt líf, þar sem hann stofnaði göngudeild sykursjúkra. Tvær eldri systur mínar eru einnig sjúkrahússlæknar – þannig að það hefði legið beinast við hjá mér að fara þá leið.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður kosin/inn forseti? - Ég var í sveit í tvö sumur á Þríhyrningi í Hörgárdal og mér líður hvergi betur en í íslenskri sveit. Þar næ ég að endurhlaða mig og fá þann kraft sem þarf til frekari verka. Verð að viðurkenna að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að það væri hægt að vinna meira með búskap á Bessastöðum, en mér finnst það í raun vera snilldarhugmynd og gæti alveg hugsað mér að skoða það betur. Svo er stutt út á strönd og kannski fer ég einnig að huga að dagróðrum :)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir