Aðventuævintýri á Hólum á sunnudaginn
Á sunnudaginn verður Aðventuævintýri á Hólum þar sem fólki gefst kostur á að heimsækja Hólastað og njóta alls þess besta sem hann hefur upp á að bjóða að þessum árstíma. Hægt verður að skera út laufabrauð, skreyta piparkökur, líta við í Nýjabæ, á Bjórsetrið og í Hóladómkirkju og síðast en ekki síst sækja sér jólatré í skóginn.
Það eru Kvenfélag Hólahrepps og Skógræktarfélag Skagafjarðar sem bjóða upp á Aðventuævin-týri á Hólum, í samstarfi við fjölda aðila á staðnum sem allir leggja sitt af mörkum. „Hefð er fyrir því að fólki gefist kostur á að kaupa jólatré og sækja það í Hólaskóg og við í kvenfélaginu ákváðum að hengja okkur utan á það. Það væri gaman ef þetta gæti orðið árviss viðburður og hver veit nema bætt verði í frá ári til árs ef þetta gengur vel,“ sagði Þuríður Helga Jónasdóttir, kvenfélagskona, í samtali við Feyki á þriðjudaginn. Tilgangurinn er að fá fólk til að heimsækja Hóla á þessum árstíma en að sögn Þuríðar er þessi árstími oft afar fallegur og notalegur þar.
Á staðnum verður hægt að kaupa sér heitt kakó og bakkelsi, í fjáröflunarskyni fyrir kven-félagið en helsta starf þess er að láta gott af sér leiða til góðgerðarmála. Þá verður hægt að skera út laufabrauð og fá það steikt Undir Byrðunni og skreyta piparkökur í Sögusetri íslenska hestsins. Markaður verður í Nýjabæ og opið í Bjórsetrinu og hinni fallegu Hóladómkirkju.
„Ég veit ekki hvort jólasveinninn verður á ferðinni en við höldum að mamma hans verði þarna, það er reynd Grýla í hópnum. Solveig Lára ætlar líka að lesa jólasögur og eflaust verði ýmsir óvæntir gestir inn og skemmta gestum,“ sagði Þuríður Helga. „Það verður einstök stemning,“ bætti hún við.
Að sögn Þuríðar eru um 20-30 virkar konur í Kvenfélagi Hólahrepps og eru margar þeirra einmitt nýkomnar úr ferð til Berlínar. Hún segir starfið skemmtilegt og að líkt og í öðrum kvenfélögum í Skagafirði hafi orðið talsverð endurnýjun. Í fyrra setti veðrið strik í reikninginn þegar halda átti aðventuhátíð á Hólum en þegar Feykir ræddi við Þuríði var hún við tölvuna að fylgjast með veðrinu. „Ég er akkúrat núna að skoða vefsíðu Veðurstofu Íslands og spáin fyrir sunnudaginn er ágæt,“ sagði hún að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.