Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi
Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var haldinn í Bjarkarlundi 2.5. s.l. Fundurinn ályktaði um mikilvægi sveitarstjórnarstigsins sem stendur almenningi næst, virðingu fyrir verkefnum og valdsviði sveitarstjórna. Fundurinn ítrekaði einnig mikilvægi jafnréttis, samfélag okkar þarf á fjölbreyttum kröftum allra samfélagshópa að halda.
Kjördæmisráðið ítrekar þá stefnu sína að stemma stigu við fjárútlátum og auglýsingum frambjóðenda og er stolt af frumkvæði Samfylkingarinnar í að upplýsa um fjármál sín. Þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem hunsa réttmætar kröfur um að hafa allt uppi á borðinu meðan aðrir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum, brjóta með því á rétti almennings til að taka upplýsta afstöðu og ógna þannig lýðræðinu.
Byggðastefna verður að taka til landsins alls og stuðla að jafnvægi í atvinnu- og byggðamálum. Atvinnugreinarnar byggja á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem eru í þjóðareigu og þeim ber að ráðstafa með hag almennings að leiðarljósi gegn sanngjörnu gjaldi notenda.
Fundurinn lýsir stuðningi við þingmenn sína og ríkisstjórn, sem hefur unnið gott starf við erfiðar aðstæður. Fundurinn skorar á þing og þjóð að halda uppbyggingunni áfram af bjartsýni og jákvæðni, með það leiðarljós býður Samfylkingin fram krafta síns fólks í sveitarstjórnum í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.