Að vera í Tindastólsliðinu er að vera hluti af fjölskyldu
Í markinu hjá Stólastúlkum í sumar stendur Amber Michel, 23 ára bandarísk stúlka frá San Diego í Kaliforníuhreppi þar sem foreldrar hennar búa ásamt bróðir hennar. Hún lauk bakkalárgráðu í viðskipta markaðssetningu í vetur við háskólann í San Diego. Amber er sannkallaður herforingi fyrir aftan vörn Tindastóls, lætur vel í sér heyra og er áræðin og kraftmikil. Hún er ein af þremur bandarískum stúlkum sem styrkja lið Tindastóls, hinar eru Murielle Tiernan og Jackie Altschuld, en þær komu til landsins í maí.
„Áður en ég kom til Íslands var ég að ljúka viðskiptafræðinni og fótboltaleiktíðinni við háskólann í San Diego,“ segir Amber í spjalli við Feyki. „Þegar því tímabili lauk vissi ég að ég vildi spila fótbolta erlendis. Jackie Altschuld, fyrrum liðsfélagi minn frá háskólanum í San Diego, sagði mér frá Tindastoll og setti mig í samband við þjálfara kvennaliðsins og hingað er ég komin.“ Amber, Mur og Jackie búa saman á Króknum og þær hófu tíma sinn hér á því að fara í 14 daga sóttkví eins og lög og reglur gerðu ráð fyrir.
Hvernig var tíminn í sóttkví hér á Íslandi? Sóttkví var svipuð og í Kaliforníu, við gátum farið í göngutúra og farið út að hlaupa sem var fínt. Mur, Jackie og ég spiluðum mikið og dunduðum við að lita til að láta tímann líða. Við vorum spenntar að klára þessa 14 daga til að komast aftur út að spila fótbolta og ég hlakkaði til að hitta liðið.
Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? Veðrið hefur komið mér mest á óvart. Ég pakkaði alls kyns fatnaði til að hafa með mér en þetta er svo frábrugðið San Diego. Ég bjóst ekki við því vindurinn væri svona mikill, en ég er smám saman að venjast honum.
Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Tindastóls? Það er einfalt; að vera í Tindastólsliðinu er að vera hluti af fjölskyldu. Fyrsta daginn eftir að við sluppum úr sóttkví var okkur boðið í mat hjá einum liðsfélaganum. Mér var tekið opnum örmum þrátt fyrir að stelpurnar þekktu mig ekki neitt. Ég var hissa á því hversu samheldinn hópurinn var og hversu hvetjandi stelpurnar voru. Þar sem ég var komin ansi langt frá heimaslóðunum vissi ég ekki við hverju ég ætti að búast en ég er svo ánægð að ég valdi að koma hingað.
Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn? Þetta er fyndin spurning, ég get ekki bara valið einn liðsfélaga. Ég er svo heppin að vera með í liði fullu af frábærum stelpum, öllum með einstaka og frábæra persónuleika. Hver einasti þeirra hefur látið mér líða þannig að mér finnst ég vera velkomin og vera hluti af liðinu og fyrir það verð ég að eilífu þakklát.
Hvaða væntingar hafðirðu til sumarsins á Íslandi? Ég vonaðist til að spila á háu gæðastigi á knattspyrnuvellinum, upplifa og læra nýja menningu og sjá allt sem Ísland hefur upp á að bjóða. Ég vissi ekki mikið um Ísland þegar ég skrifaði fyrst undir samninginn minn, en hér er fallegt og fólkið hérna er svo gott.
Hvaða leikmaður hefur verið þín helsta fyrirmynd? Hope Solo hefur veitt mér innblástur, þá sérstaklega vegna staðfestu hennar, hugrekki og spilamennsku. Ég var vön að horfa á hana spila þegar ég var yngri og ég elskaði að sjá hvað hún lagði hart að sér og hversu óhrædd hún var í markinu.
Hvað gerir þú annað en að spila fótbolta hér á Króknum? Á dæmigerðum degi er ég að hjálpa til á vallarsvæðinu að morgni. Svo borðum við hádegismat og eftir hádegi þjálfa ég 3. flokk hér hjá Tindastóli. Eftir það er vanalega æfing hjá meistaraflokknum og þar á eftir borðum við kvöldmat. Við tókum nýlega upp á því að horfa á kvikmyndaseríur og klára þær í röð. Við horfum á kvikmynd á hverju kvöldi þar til við klárum seríuna. Við erum búnar að klára The Hunger Games og Harry Potter seríurnar. Stundum þegar sólarlagið er virkilega fallegt þá förum við niður í fjöru og horfum á sólina setjast og rísa.
Hvað hefur verið erfiðast við að dvelja á Íslandi? Það erfiðasta við að vera á Íslandi er að ég sakna fjölskyldunnar og vina minna. Þau ætluðu að heimsækja mig snemma í sumar en því hefur verið frestað vegna Covid. Þetta er stundum erfitt en ég myndi ekki skipta á þessari reynslu fyrir heiminn.
Þess má geta í lokin að lag sumarsins að mati Amber er Jaja Ding Dong og henni finnst allt gott í Bakaríinu á Króknum. Skrítnasti maturinn sem hún hefur bragðað á Íslandi er fiskbollur. - Myndirnar hér að neðan eru fengnar að láni á Facebook-síðu Amber og frá leikjum Tindastóls í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.