Að flytja aftur heim :: Áskorandapenninn Lee Ann Maginnis Blönduósi
Árið 2014, þegar ég var nýútskrifuð úr háskóla, gerðist svolítið sem átti aðeins eftir að breyta framtíðaráformunum. Ég var búin að ráða mig í vinnu við Háskólann á Bifröst og ætlaði mér að búa þar áfram eftir útskrift. Ég hafði líka nokkuð mörgum árum áður tekið þá ákvörðun að flytja aldrei aftur á Blönduós þegar ég flutti þaðan.
En svo kom símtalið og þá var ekki aftur snúið. Mér var boðið tímabundið starf við það sem ég hafði menntað mig til síðustu fimm árin. En mig vantaði húsnæði, ég sá fram á að lækka töluvert í launum og ég þurfti að rífa mig og son minn upp frá þeim stað sem við höfðum byggt upp okkar líf fyrir algjöra óvissu þegar ráðningarsamningurinn rynni á enda.
Húsnæðið reddaðist og ég pakkaði allri búslóðinni niður og flutti aftur heim. Lífsgæðin í þessari ákvörðun verða aldrei metin til fjár. Nú sex árum seinna er ég enn hér, búin að fjárfesta í fasteign og ætla mér að vera hér á Blönduósi eitthvað áfram. Ég fæ samt enn spurninguna ,,Af hverju býrðu á Blönduósi?“. Svarið er einfalt, hér er einfaldlega frábært að búa.
Ég bý um það bil 750 metrum frá vinnustaðnum mínum, sonur minn er í mesta lagi 3 mínútur að hjóla í skólann. Hann er í fótbolta, körfubolta, metabolic, golfi og tónlistarskóla og ég þarf ekki að selja úr mér líffæri til að eiga fyrir því. Sonur minn hefur ömmu og afa í næstu götu og þar er ýmislegt hægt að bralla þegar móðir hans sýnir ekki sínar bestu hliðar að hans mati. Hér er besta sundlaug landsins og margt í boði fyrir flesta aldurshópa. Stutt í allar áttir ef maður vill breyta um umhverfi og nokkuð góðar samgöngur, svona þegar maður má ferðast á milli landshluta.
Ég hef aðeins getað skipt mér af pólitíkinni, tekið þátt í allskonar félagsstarfi, menntað mig aðeins meira, unnið á nokkrum stöðum og jafnvel reynt að bæta sjálfa mig og samfélagið á meðan. Auðvitað er lífið ekkert alltaf dans á rósum en ef þér leiðist þá þarftu ekki meira en að skella þér í sund eða göngutúr og þú hittir einhvern sem þú þekkir. Þannig að ef einhver sem er að lesa þetta íhugar það að flytja á Norðurland vestra, þá get ég svo sannarlega mælt með því.
Ég skora á Sigríði Helgu Sigurðardóttir, leikskólastjóra Barnabæjar að taka við pennanum.
Áður birst í 42. tbl. Feykis 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.