80 ár í syngjandi sveiflu í Hofi í haust
Aðdáendur skagfirsku sveiflunnar þurfa ekki að örvænta í haust. Tónleikahaldararnir Dægurflugan munu í október færa Norðlendingum örlítið nettari útgáfu af 80 ár í syngjandi sveiflu sem var sett upp tvívegis í vor í Hörpu. Þá mætir Geirmundur með eigin hljómsveit í Salinn í Kópavogi nú í september með sígilt söngkvöld.
Hann verður í Salnum þann 21. september og þar verða með honum Jói Færeyingur á trommur, Sóli Friðriks á bassa og Birgir Jóhann Birgisson spilar á hljómborð. Sjálfur verður Geiri með nikkuna góðu meðferðis og svo syngja allir saman sveiflulögin einu sönnu.
Í tilefni 80 ára afmælis Geirmundar í vor var slegið upp glæsilegum tónleikum í Hörpu þar sem Maggi Kjartans stjórnaði hljómsveit af röggsemi. Hann mætir norður í Hof sunnudaginn 13. október ásamt úrvali hljóðfæraleikara sem munu flytja öll vinsælustu lögin hans Geira. Sigríður Beinteinsdóttir, Grétar Örvarsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Óskar Pétursson og Ari Jónsson munu koma þar fram og syngja lög á borð við Ort í sandinn, Nú er ég léttur, Lífsdansinn, Með vaxandi þrá, Línudans og Ég syng þennan söng ásamt fjölda annarra laga sem hvert mannsbarn þekkir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.