340 leikir á Króksmóti um helgina
Von er á u.þ.b. 900 strákum á Króksmót um helgina sem ætla að eyða helginni í það að sparka bolta, skora mörk, verjast og gleðjast. Næst stærsta mót frá upphafi.
Alls keppa 102 lið frá 19 félögum víðs vegar af landinu, samtals 340 leiki frá laugardagsmorgni til sunnudagssíðdegis.
Ákveðið var að breyta fyrirkomulagi Króksmótsins þannig að héðan í frá verður það eingöngu ætlað strákum og er það von skipuleggjanda að það gefist vel. Að sögn Guðjóns Arnar Jóhannssonar hjá Tindastóli var þetta gert með það í huga að strákarnir fengju sitt mót og stelpurnar sitt sem er Landsbankamótið. -Stelpulið hafa fengið að taka þátt í Króksmótinu áður en lenda oft í erfiðri aðstöðu gegn sterkum strákaliðum og úrslitin eftir því. Á Landsbankamótinu fá þær leiki við hæfi, segir Guðjón sem vonar að þessi ákvörðun njóti skilnings hjá foreldrum stelpnanna.
Guðjón segir að mikil vinna liggi að baki svona móti. Mánaðarvinna fer í skipulagningu og taka við skráningum og nú síðustu dagana koma margir að því að skipuleggja gistingu, matarmálin og raða niður leikjum svo eitthvað sé nefnt. Segir hann að gengið hafi vel að fá fólk til að starfa og búið að manna alla stöður og vill Guðjón koma innilegum þökkum til allra sem leggja hönd á plóg við framkvæmd mótsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.