180 ára afmæli aldarinnar í Miðgarði
Það var heljarins húllumhæ í Miðgarði um síðustu helgi en þá héldu sex æskuvinir upp á 180 ára afmæli sitt – samanlagt. Þeir urðu allir þrítugir á síðasta ári en þá mátti auðvitað ekki halda neinar stórveislur. Nú voru kapparnir klárir í slaginn og var öllum boðið í menningarhúsið góða en þar var boðið upp á skemmtun og sveitaball að hætti hússins. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir eitt afmælisbarnið, Birgi Þór Guðmundsson frá Stóru-Seylu, og fékk myndir til birtingar frá Jóndísi Ingu Hinriksdóttur sem sá um að fanga viðburðinn og gesti á myndir.
„Þetta var 180 ára afmæli aldarinnar!“ segir Biggi þegar Feykir spyr út í veisluna. „Tilefnið var að við vinahópurinn urðum allir 30 ára á síðasta ári. Við erum semsagt sex æskuvinir sem stofnuðum ferðafélag þegar við vorum 16 ára og höfum haldið hópinn síðan. Hugmyndin að því að halda afmælisball í Miðgarði kom þegar við vorum í mikilli heimsreisu um Pólland fyrir nokkrum árum. Samkvæmt fundargögnum var þetta ákveðið 12. október 2019 kl. 21:32 á Hoza Steakhouse,“ segir hann.
Vinahópinn skipa þeir Smári Hallmar Ragnarsson gjaldkeri, ættaður frá Holtsmúla, Sæmundur Jónsson ritari,Bessastöðum, Jakob Logi Gunnarsson, Löngumýri, Birgir Þór Guðmundsson, Stóru-Seylu, Aðalsteinn Orri Sigrúnarson,ættaður frá Ármúla, og Pétur Óli Þórólfsson, Hjaltastöðum, sem er formaður. Ferðafélag strákanna heitir Lyfting „...eftirmeri sem Þórólfur á Hjaltastöðum átti. Hún var alltaf með trússinn okkar og var okkur því mjög mikilvæg,“ útskýrir Biggi.
Hvað var helst til skemmtunar og hvað þótti ykkur félögunum vænst um? „Það var hörku dagskrá! Geirmundur Valtýsson, Sigrún Hjálmtýs (Diddú), Edda Borg og Sæþór. Síðan voru nokkrar góðar ræður og leikir. Endaði síðan á balli með hljómsveitinni Mannamót með Sigvalda, bróðir Jakobs, fremstum í flokki. Ætli okkur þyki ekki vænst um að fólk hafi nennt að mæta.“
Hversu margir létu sjá sig og hvernig var stemningin? „Við höldum að það hafi mætt um 400 manns. Það var gríðarleg stemning og engin til í að hætta kl. 3:00 um nóttina.“
Mælirðu með þessum veislustjórum sem þið fenguð? „Já! Ragnheiður Brimnesi og Gunnhildur Hofdölum (Álftagerði) fóru á kostum. Ragnheiður er æsku vinkona okkar og var bekkjarsystir okkar í Varmahlíðarskóla svo hún vissi allt um okkur. Gunnhildur er mjög fyndin og skemmtileg dama svo þær áttu báðar vel heima þarna!“
Á að endurtaka leikinn? „Já... eða við eigum eftir að funda um það en ég er klár eftir 10 ár! Allir að taka frá laugardaginn 16. ágúst 2031!“
Strákarnir þáðu engar gjafir en voru með bauk þar sem gestum gafst tækifæri til að styrkja gott málefni í Skagafirði. „Fengum við um 450 þúsund og höfum við fundið verðugt málefni til að styrkja innan Skagafjarðar,“ segir Biggi að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.