1054 selir taldir í Selatalningunni miklu

 Í gær fór Selatalningin mikla fram á vegum Selasetursins á Hvammstanga, en þetta var fjórða árið í röð sem selir eru taldir á þennan hátt við innanverðan Húnaflóa. 

Alls tóku um 30 manns þátt í talningunni, þar af 25 sjálfboðaliðar víðs vegar að úr heiminum. Flestir fóru fótgangandi en einhverjir fóru ríðandi auk þess sem selaskoðunarbáturinn Brimill taldi stórt svæði við innanverðan Miðfjörð.  Alls voru taldir 1054 selir í ár, sem eru heldur fleiri en í fyrra en þá voru selirnir 1019.

Hvernig fer talningin fram?
Til þess að fá sambærilegar tölur á milli ára er miðað við að telja við sem líkastar aðstæður í hvert sinn. Alltaf er talið á stórstreymisfjöru í lok júlí. Byrjað er að telja um 2 tímum fyrir háfjöru og lýkur talningu um 2 tímum síðar. Áhersla er lögð á að telja öll svæði á sama tíma til að koma í veg fyrir tvítalningu.

Þeir þættir sem helst hafa áhrif á fjölda taldra sela eru:
•Veður: Það eru meiri líkur á að selir liggi uppi á landi þegar veðrið er gott (logn, sól, hiti), heldur en þegar það er rok eða mjög kalt. Í lok júlí eru bestu líkurnar á góðu veðri og því fer talningin fram þá.

•Árstími: Selir virðast færa sig á milli svæða árstíðabundið, en við höfum meiri þekkingu á því hvar þeir dvelja á sumrin en veturna.

•Sjávarföll: Rannsóknir hafa sýnt fram á að mestar líkur til að sjá seli á landi eru á fjöru, þess vegan fer Selatalningin mikla alltaf fram á stórstreymisfjöru.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að heildartalan sem við fáum út úr þessum talningum er þó ekki mat á stofninum í heild, því alltaf má gera ráð fyrir einhver hluti af selunum sé neðansjávar þegar talningin fer fram.

/Selasetrið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir