1-1-2 dagurinn haldinn hátíðlegur um sl. helgi
Á Norðurlandi vestra var 1-1-2 dagurinn, sem var sunnudaginn 11. febrúar, haldinn hátíðlegur á Hvammstanga, Blönduósi og á Sauðárkróki.
Á Hvammstanga skipulögðu viðbragðsaðilar í Húnaþingi vestra hópakstur á sunnudeginum en lagt var af stað frá Húnabúð - slökkvistöðinni kl. 16. Þeir sem höfðu áhuga á að fljóta með gátu hoppað upp í bílana, á meðan pláss leyfði, og endaði aksturinn á sama stað þar sem fólk gat komið og skoðað öll tækin.
Á Blönduósi hittust viðbragðsaðilar í Húnabyggð, á sunnudeginum, á planinu við lögreglustöðina kl. 15:30. Þaðan var tekinn hópakstur um bæinn sem endaði fyrir framan lögreglustöðina. Þar voru tæki og búnaður viðbragðsaðila til sýnis og var boðið upp á kaffi, ávaxtasafa og kex til kl. 17:00.
Á Sauðárkróki var skipulagður fjölskyldudagur í tilefni dagsins í Sveinsbúð á laugardeginum frá kl.13-16. Öll tæki voru sett út á plan og heimsótti Félag slökkviliðsmanna einnig svæðið með sín tæki. Þá voru settar upp stöðvar inni í Sveinsbúð þar sem fjölskyldan gat spreytt sig á alls konar leikjum/þrautum, litað og fleira og að lokum (nú eða á undan) gat fólk keypt sér kaffi, djús og vöfflur. Frítt var inn à viðburðinn en tekið var á móti frjálsum framlögum. Á Facebook-síðunni Björgunarsveit Skagfirðingasveit segir að dagurinn hafi verið virkilega skemmtilegur og vel heppnaður og steiktar voru um 350 vöfflur sem runnu ljúflega niður hjá gestum dagsins. Ekki var annað að sjá en að bæði skipuleggjendur og gestir hafi farið með bros á vör heim eftir góðan dag í Sveinsbúð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.