Vill gamla Staðarskála aftur
Kristinn Guðmundsson atvinnubílstjóri tók tíðindum af niðurlagningu gamla Staðarskála mjög illa. Hann var einn af þeim síðustu sem fékk afgreiðslu þar og brast í grát þegar starfsstúlkan rétti honum pulsu með öllu nema hráum og malt í gleri yfir afgreiðsluborðið. – Hvernig er það í þessum heimi eiginlega, má ekkert gamalt og gott halda sér?, spyr Kristinn og bætir við að honum hafi þótt það gríðarlega sorgleg tilhugsun að eiga aldrei eftir að fá pulsu með öllu nema hráum og malt í gleri afgreitt í gamla Staðarskála. – Það er ekki nóg með að Brúarskálinn hafi verið rifinn, heldur þarf að loka þessum stað líka. Samlokan með skinku og osti var hvergi betri en í Brúarskála og kaffi þar var alveg yndislegt, sagði Kristinn í samtalinu við Dreifarann.
Hann óskaði strax eftir áfallahjálp hjá Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga þegar Staðarskála var lokað og brást stofnunin skjótt við og sendi sérfræðinga sína til Kristins þar sem hann sat sem fastast í flutningabifreið sinni á planinu fyrir utan Staðarskála hinn forna. Var hann að sögn þeirra orðinn langt leiddur og kominn með þunglyndiseinkenni.
Skv. heimildum Dreifarans, sem líkt og áður eru án allrar ábyrgðar, áformar Kristinn að efna til mótmæla í anda vörubílstjóramótmælanna síðast liðið vor og krefjast þess að gamli Staðarskáli verði opnaður að nýju og minnisvarði verði settur upp þar sem veitingaskálinn við Brú stóð áður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.