Úrkomutilboð í sumar
Á komandi sumri verður hrint úr vör tilraunaverkefni á vegum Landbúnaðarfélags Norðurlands vestra og afurðastöðva á svæðinu er miðar að því að fá bændur til að vera meira heima við á meðan á slætti stendur og rífandi þurrkur er. Að sögn Sverris Oddssonar formanns Búnaðarfélagsins er talið að auka megi næringargildi heyja um allt að 20 % ef fljótt er unnið í þurrki. Hann segir að það sé nokkuð algengt að bændur bregði sér í kaupstaðarferð þegar þurrkur er og það komi niður á slætti og vinnslu heyja. Því hefur verið leitað samstarfs við kaupmenn á svæðinu og þess farið á leit við þá að þeir bjóði upp á úrkomutilboð þegar vott er í veðri eða þegar spáð er rigningu. Með þessu móti ætti að vera hægt að koma á móts við bændur sem þyrstir í kaupstaðarferð. Þó er ekki reiknað tilboðin verði í gildi í skúraleiðingum.
Framkvæmdin verður í höndum Búnaðarfélagsins, sem tímabundið hefur ráðið tvo starfsmenn til undirbúnings og framkvæmdar verkefnisins. Þegar hefur verið hafist handa við að safna saman tölvupóstföngum bænda og kaupmanna og eru báðir aðilar ánægðir með framtakið, - þó sérstaklega kaupmenn. Þessar upplýsingar verða síðan samkeyrðar, þannig að þegar spáð er úrkomu til lengri eða skemmri tíma munu tölvupóstar fara í loftið til þátttakenda. Vegna síharðnandi samkeppni í útgáfu veðurspáa hefur þó ekki enn verið gengið frá samningum við spáaðila, en Sverrir segir að niðurstaða muni liggja fyrir á næstu vikum.
Í framhaldinu munu rannsóknastofnanir kanna árangur verkefnisins með sýnatöku úr heyjum á svæðinu. Einnig verða tekin sýni úr afurðum frá mjólkurstöðvum og kjötframleiðendum.
Haft er eftir aðilum innan Landbúnaðarráðuneytisins, að verði niðurstöður jákvæðar muni vera vilji fyrir því innan ráðuneytisins að gefa út reglugerð um skylduaðild allra bænda og kaupmanna á landinu að veðurtengdum kaupstaðarferðum og úrkomutilboðum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.