Þjóðvegurinn um Eyjafjörð styttur um 30 Km?
Nýtt einkahlutafélag ÚR LEIÐ ehf hefur gert könnun á styttingu Hringvegarins um Eyjafjörð. Forsvarsmenn félagsins telja að með þessari nýju vegtengingu verði hægt að stytta hringveginn um allt að tíu kílómetra í fyrstu og um 20 kílómetra í áfanga tvö.
Hugmyndir félaganna ÚR LEIÐ ehf eru að grafa 8 Km löng göng úr Öxnadal, við Bakkasel, yfir í Skjóldal í Eyjafirði, það er undir Gloppufjall. Þjóðvegurinn myndi þá koma inná Eyjafjarðarbraut við Möðrufell. Með þessu móti verður hægt að sleppa því að aka um Öxnadal og Hörgárdal og ekki síst verður hægt að komast hjá því að aka í gegnum Akureyri sem eigendur félagsins telja að sé ein versta hraðahindrunin á þjóðveginum. Með þessu verði hægt að stytta hringveginn um 10 kílómetra og að minnsta kosti 20 mínútur, bætir Agnar „Sveri“ Ekilsson forsvarsmaður félagsins við. Áfangi tvö gerir svo ráð fyrir því að göng um Vaðlaheiði verði flutt sunnar þannig að ekið verði yfir Eyjafjarðará við Hrafnagil og svo í tveim göngum, annars vegar í Fnjóskadal til móts við Fjósatungu og þaðan yfir að Ljósavatni en þetta gæti stytt þjóðveginn enn frekar eða um allt að 20 Km.
Aðspurður um hvort það komi ekki til með að mæta andstöðu hjá verslun og þjónustu á Akureyri að skera bæinn svona frá þjóðveginum svarar Agnar „Sveri“ því til að það skipti engu máli. „Þjóðvegurinn er mjög mikilvægur fyrir samgöngur í landinu og því ber okkur að stytta allar vegalengdir eins og við getum. Sérhagsmunir þorpsbúa á landsbyggðinni hafa lítið vægi þegar litið er til heildarhagsmuna allra íbúa landsins. Þorp sem losna við hringveginn úr byggðalaginu ættu bara að vera þakklát fyrir að umferð þar minnki og ég get ekki séð að flutningur þjóðvegarins eigi að hafa áhrif á verslun og þjónustu á Akureyri“
ÚR LEIÐ ehf mun leggja hugmyndir sínar fyrir hreppstjórnir Hörgárhrepps og Eyjafjarðarsveitar á næstunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.