Stefán Orri er með slæman verk en vill ekki hitta lækni
Stefán Orri Stefánsson, stundum nefndur Neyðarkallinn, setti sig í samband við ritstjórn nú í morgun og sagði farir sínar ekki sléttar. „Ég skal nú segja þér það vinur minn, að þetta samfélag okkar er hérna bara alveg farið í hundana, alveg hreint bara vinur minn, og þetta heilbrigðiskerfi okkar er alveg komið í þrot, þar stendur ekki steinn yfir steini. Ég lenti í smá óhappi nú í vor og ég fæ bara enga aðstoð, þá var sko farið beint í rassgatið á mér, skal ég segja þér vinur minn, á hérna stöðvunarskyldu hérna í bænum og ég hef bara ekki getað tekið á heilum mér síðan. Allur verkjaður eitthvað og, já, bara ómögulegur. Og svo er bara hlegið að manni í þessu kerfi okkar!“
Ja, það er ekki gott að heyra Stebbi, en hvað segirðu, hvar var keyrt á þig? „Nú bara beint í rassgatið. Aftanákeyrsla sjáðu til.“
Já en hvar? „Hvar? Nú, þarna við leikskólann. Það eru ekkert allir sem nenna að stoppa þar og ég var bara fyrir einhverjum sendibíl. Hann hefur örugglega verið í símanum strákpjakkurinn... en ég er bara búinn að vera ómögulegur síðan skal ég segja þér.“
Og ertu búinn að láta lækni skoða þig? „Lækni!?! Nei heyrðu mig vinur, það fer ekki nokkur maður til læknis nú eins og ástandið er í þjóðfélaginu, maður verður bara gerður ábyrgur fyrir því að sóttvarnalæknir skelli bara öllu í lás enn eina ferðina. Þetta lið á spítölunum rekur upp harmakvein í hvert sinn sem það fjölgar um tvo þrjá sjúklinga. Neinei. Svo er örugglega allt morandi í kóvid á spítölunum og svona þannig að ég ætla ekki að fara að stinga hausnum inn í eitthvað pestarbæli. Enda er þetta bara verkur sem ég er með, leiðindaverkur skal ég þér segja vinur minn, en ég er ekkert brotinn eða þannig svo ég ákvað bara að leita til sérfræðings. En það er bara sama hvert ég hef hringt, það er hlegið að mér. Ég bara skil þetta ekki.“
Það var skrítið... og í hverja hefurðu verið að hringja fyrst þú hringir ekki á sjúkrahús, einkageirann eða... „Einkageirann!? Ertu alveg frá þér vinur minn, heldurðu bara að ég liggi á féþúfu og dreymi um að láta ræna mig? Einkageirann, það var þá!“
Hefurðu þá heyrt í sjúkraþjálfara? „Nei, ég nenni nú ekkert að fara að þjálfa eitthvað á mínum aldri, neinei, eins og ég var að segja þér þá leitaði ég bara þangað sem eðlilegt er að leita, til sérfræðinga í verkjum.“
Eru það ekki læknar? „Nei, neinei, það eru sko verkfræðingar.“
Verkfræðingar!? „Já og þar hef ég fengið að kynnast því hvernig þetta heilbrigðiskerfi okkar hreinlega kærir sig ekki um okkur sem þurfum á aðstoð að halda.
Jæja... „Já, ég veit, þetta er ótrúlegt. Ég er búinn að hringja í ótal verkfræðistofur um allt land og það hefur nánast alls staðar verið hlegið að mér og sumir hafa bara skellt á mig. Á einum staðnum var mér bent á að tala við sálfræðing og nú síðast svaraði stúlka í símann og þegar ég hafði borið upp erindið hló hún bara feimnislega, já hún hló að mér verkjuðum manninum, og sagði síðan: „Ert þetta þú loksins, það var búið að vara mig við að ég gæti átt von á svona símtali...“ Svo sagði hún að sér finndist þetta pínu sætt og óskaði mér hérna bara velfarnaðar og hérna að þetta hefði verið skemmtilegt símtal! Ég meina, eru bara allir orðnir vitlausir? Hverslags svör eru þetta. Mér er skapi næst að hringja í hana Svandísi og svoleiðis hella mér yfir hana. Þessi þjónusta er ekki boðleg, skal ég þér segja.“
Jæja Stebbi minn, þetta er ekki gott. En hvað segirðu, heldurðu að þú hafir nokkuð fengið höfuðhögg í þessari aftanákeyrslu? „Nei, það held ég ekki... en ég er jú reyndar búinn að vera með höfuðverk síðan hérna þá, og já, kannski verið pínu utan við mig og ringlaður. Af hverju spyrðu?“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.