Reyndi að ræna banka vopnaður Julio Iglesias
Maður ruddist inn í Arionbanka á Blönduósi í gær og hugðist ræna bankann. Var maðurinn vopnaður stórum ferðageislaspilara og hótaði starfsfólki með lögum Julio Iglesias.
-Við hérna á bak við vissum ekki hvað var í gangi þegar við allt í einu heyrðum þessa dúndrandi músík frammi, sagði Viðar Gíslason útibússtjóri. Við þustum fram í afgreiðslu og þar var grímuklæddur maður sem hélt á ferðasegulbandstæki og spilaði þar lög með Julio Iglesias. Hann stoppaði síðan tónlistina allt í einu og öskraði yfir allan bankann að hann væri að ræna og ef við létum hann ekki hafa peninga strax myndi hann spila fleiri lög með Iglesias, sagði Viðar.
En ræninginn gat í raun ekki farið inn á verri stað vopnaður Iglesias, því á jólahlaðborði starfsfólks fyrir skömmu höfðu Viðar og tvær samstarfskonur hans í bankanum, flutt stutt lagashow einmitt með Julio Iglesias við góðar undirtektir. Þegar ræninginn sá að starfsfólkið virtist taka þessari hótun af jafnaðargeði og jafnvel með söng og dansi, varð honum ekki um sel og þusti út í morgunrökkrið.
Að sögn lögreglunnar á Blönduósi er mannsins nú leitað og eru allir þeir sem heyra tónlist með Iglesias, eða vita um aðdáendur hans á svæðinu, vinsamlegast beðnir um að láta lögregluna vita strax.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.