Hreinn Sveinn hannar fyrir IKEA
Hreinn Sveinn Guðvarðarson á Sauðárkróki hefur verið valinn af IKEA til að hanna lausnir fyrir þröng rými. Var hann valinn úr hópi hönnuða sem kepptum um hylli IKEA. Heillaði hann forráðamenn IKEA upp úr skónum með hönnun sinni á sambyggðri þvottavél og klósetti.
Að sögn Hreins Sveins var þemað umhverfisvænar lausnir hjá IKEA að þessu sinni og sendi hann inn sína eigin hönnun að sambyggðri þvottavél og klósetti eins og áður segir. –Ég var búinn að smíða þetta fyrir tveimur árum og nota hérna heima, sagði Hreinn í samtali við Dreifarann. – Baðherbergið hjá mér er mjög lítið og ég var að leita eftir einhverju sniðugu sem hentaði þarna inn. Þá kom upp þessi hugmynd að setja saman þvottavél og klósett og það hefur komið mjög vel út. Affallsvatnið af þvottavélinni fer í klósettkassann og nýtist þannig þegar sturtað er niður auk þess sem klósettið er ávallt hreint og fínt.
IKEA mun hefja fjöldaframleiðslu á þessari vöru sem á íslensku hefur hlotið nafnið Þvottavélaklósett. Hreinn hefur hannað fleiri hluti sem aldrei er að vita nema rati á síður IKEA-bæklingsins, en þvottavélaklósettið má einmitt sjá í nýjasta bæklingnum frá fyrirtækinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.