Heimildarmynd um túnið á Hóli
Eyvindur Karlsson bóndi á Hóli, hefur ráðist í það stórvirki að gera heimildarmynd um túnið við bæinn. Túnið er þekkt fyrir afar góð og næringarrík hey og eru jafnvel dæmi um það að heimilisfólk hafi snætt það sér til heilsubótar og að sögn Eyvindar, verður því aldrei misdægurt. Í túninu vex líka jurt sem þau kunna ekki skil á en veitir heimilisfólki vellíðan og ró, þegar hennar er neytt.
En það hlýtur að vera meira en að segja það að fjármagna heimildarmynd? –Já þetta kostar nú allt saman eitthvað, en við vinnum þetta mest hérna á bænum bara fjölskyldan, sagði Eyvindur við Dreifarann. –Strákurinn á þessa fínu myndavél sem við notum í verkið og Siggi á næsta bæ á einhverja tölvu sem hann ætlar að lána okkur, þannig að það má segja að þetta sé svona innansveitarverkefni hjá okkur sem margir koma að.
En af hverju að gera heimildarmynd um tún, er gras ekki bara gras? –Nei gras er nú ekki bara gras skal ég segja þér. Við þurfum að slá túnið að minnsta kosti fimm sinnum á sumri, þvílík er sprettan og það hefur komið í ljós að samsetning heysins er ekki eins og á öðrum túnum. Næringin er mun meiri og í því og í því vex líka jurt sem veitir okkur vellíðan ef við neytum hennar. Það verður allt svona draumkennt og eins og við svífum um. Við neytum hennar að vísu ekki nema á kvöldin, annars kæmum við nú ekki miklu í verk, segir Eyvindur.
Áætlað er að heimildarmyndin verði frumsýnd að Hóli snemma á næsta ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.