Hefur framleiðslu á heimatálguðum tannstönglum
Erlingur Veturliðason bóndi í Skagafirði hefur ákveðið að hefja framleiðslu á tannstönglum. Erlingur og fjölskylda brugðu nýlega búi og við það safnaðist saman ýmislegt eins og girðingastaurar og innréttingar úr fjárhúsum og fjósi. Frekar en að láta þessi verðmæti fara fyrir lítið, ákvað fjölskyldan að skoða það af alvöru að koma þessu í verð. –Já þetta kom nú þannig til að við vorum að safna þessu í haug þegar við vorum að taka til á bænum og okkur fannst þetta vera ansi mikill viður sem þarna færi fyrir lítið, sagði Erlingur í samtali við Dreifarann. –Við ræddum það fyrst að gefa þetta inn á Hvammstanga í áramótabrennuna, en okkur fannst það einhvern veginn ekki hæfa þessu, þar sem við vorum að kveðja þarna okkar ástkæra bú eftir áratuga veru þar.
Erlingur leitaði til kunnáttumanna í markaðsmálum og voru þeir sammála um að hugmynd Erlings um að setja á markað mismunandi stærðir og gerðir af tannstönglum gæti slegið í gegn. –Já þeir voru jákvæðir á þetta markaðsmennirnir. Við nefnilega erum ekki að tala um venjulega fjöldaframleidda tannstöngla, heldur ætlum við að tálga hvern og einn út úr timbrinu, þannig að það verður enginn eins. Við ætlum líka að merkja þá sérstaklega, t.d. getur fólk lent á pakka sem inniheldur tannstöngla úr fjósinu, eða fjárhúsunum og svo verða þarna girðingastauratannstönglar einnig. Erlingur segir að fjölskyldan ætli að vinna þetta saman, sitja saman úti í skemmu og tálga. –Við erum fjögur á bænum og ætlum að gera þetta að fjölskyldubisness og treysta þannig böndin á milli okkar líka, sagði Erlingur.
En hvenær er von á framleiðslunni á markað? - Ef vel gengur ættu fyrstu pakkningarnar að koma á markað árið 2012 líklega síðla það ár. Það tekur náttúrlega tíma að tálga þetta til, en við teljum að eftirspurnin sé næg og á þessum tíma ætlum við að ná upp mikilli eftirspurn. Fara kannski í stórmarkaði og leyfa fólki að prófa og þannig. Það er nefnilega þannig að enginn tannstöngull verður eins og því kemur þetta jafnvel til með að hafa söfnunargildi auk þess að passa upp í hvern einasta kjaft, það eiga allir eftir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.