Hefur flatfiskeldi í sveitinni
Eyjólfur Sýrusson, bóndi í Blönduhlíðinni í Skagafirði hefur ákveðið að hefja fiskeldi á bæ sínum. Tekur hann þar með þátt í átaki sem m.a. Skagafjarðarveitur hafa verið að kynna undanfarin misseri, um bleikjueldi á sveitabæjum í héraðinu. Ekki er það þó bleikja sem Eyjólfur hyggst rækta, heldur neyðist hann vegna húsakosta sinna, að rækta flatfiska.
-Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að í því húsnæði sem ég hef aflögu fyrir fiskeldið, er mjög lágt til lofts og því hentar mér ekki að rækta þarna annað en flatfiska, sagði Eyjólfur við Dreifarann á dögunum. –En ég er mjög spenntur fyrir þessu, ég held að það séu miklir möguleikar í flatfiskeldi, ekki síður en bleikju- og laxeldi, segir Eyjólfur.
Stefnt er á að Eyjólfur rækti lúðu og kola í húsnæði sínu og er hann þegar búinn að festa kaup á seiðum. Býst hann við þeim heim á bæ upp úr næstu mánaðarmótum. – Við komum til með að vinna þetta sem aukabúgrein og vonandi verður þetta eitthvað til að byggja á í framtíðinni, sagði Eyjólfur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.