Hefja framleiðslu á hársnyrtivélmenni fyrir sjómenn
Fyrirtæki hefur verið stofnað á Blönduósi um smíði á sjálfvirku hársnyrtivélmenni. Það eru þeir Frosti Gústafsson og Friðbjörn Kárason sem ætla að hefja fjöldaframleiðslu á vélmennunum og hafa þeir félagar þegar fengið nokkrar pantanir og fjölmargar fyrirspurnir.
-Þetta byrjaði eiginlega með því að Siggi vinur okkar, sem er sjómaður, var að kvarta yfir því að geta ekki stokkið í klippingu eða lagningu í miðjum túr og taldi mikið óhagræði af því fyrir sig, sagði Frosti í samtali við feykir.is. – Við settumst yfir þetta og fannst tilhlýðilegt að reyna að gera eitthvað í málinu, bætir Friðbjörn við.
Þeir félagar settust niður og teiknuðu prótótýpu af vélmenni sem þeir sáu fyrir sér að gæti verði um borð í hverju skipi við Ísland og markaðurinn er stór segja þeir. –Þetta getur verið byrjunin á einhverju fleiru í þessa veruna fyrir sjómenn, það er ýmis þjónusta sem þeir geta ekki komist í úti á sjó. Bylting hefur orðið í internetsamskiptum sjómanna undanfarin ár og þeir hafa ljósabekki og líkamsræktartæki í skipunum en það er ýmislegt svona sem vantar ennþá, sagði Friðbjörn.
Frosti sagði að það þætti alveg sjálfsagt þegar fólk færi í mat að það væri snyrtilegt til fara og greiddi sér gjarnan og af hverju ættu sjónmenn ekki að eiga þess kost að snyrta á sér hárið áður en þeir fara í matsalinn spyr hann. Hann bætti við að það mætti alveg sjá fyrir sér fótsnyrtivélmenni, bakklórsvélmenni og fleira.
Þeir félagar hafa þegar fengið nokkrar pantanir á hársnyrtivélmenninu og hyggjast hefja á því fjöldaframleiðslu í lok júní.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.