Grunsamleg spor finnast í Mývatnssveit.- fjárbændur skelkaðir
Það var á dögunum að nokkrir bændur úr Mývatnssveit fóru að leita að eftirlegukindum í hrauninu austur af Dimmuborgum. Engar fundust nú kindurnar en rétt austan við borgirnar fundu menn hinsvegar stór fótspor sem líktust bjarndýrssporum.
Voru flestir á því að þar væri ísbjörn á ferðinni og væri eflaust um sama dýrið að ræða og það sem leitað var að við Hveravelli. Voru bændur nokkuð skelkaðir og hröðuðu sér heim til að ná í aðstoð. Þar sem ekki náðist í umhverfisráðherra og ekki heldur í lögreglustjórann á Sauðárkróki en hann ku hafa mikla reynslu af ísbjörnum voru góð ráð dýr. Fundu menn það út að þar sem forstöðumaður Mývatnsstofu væri líka frá Sauðárkróki þá gæti hann kannski aðstoðað við handasama dýrið og svo kann hann svolítið í dönsku ef þyrfti að panta búr undur bangsa. Fóru menn nú um helgina að svipast um eftir ísbirninum en sporin voru flest horfin vegna þíðunnar undanfarna daga svo lítið gekk að finna dýrið.
Þar sem menn voru við það að gefast upp gengu þeir fram á margar slóðir sem lá inn í hellisskúta í hrauninu og var mikið traðk við hellinn. Enginn fannst björninn en hins vegar fannst hálft hangilæri, nokkrir endar af bjúgum, nagaðir kertastubbar og brot úr skyrtunnu svo greinilegt að þarna hefði verið matast nýlega. Eru menn nú frekar á því að sporin sem sáust hafi verið eftir jólasveinana en þeir búa einmitt þarna í nágrenninu og hafi þeir verið berfættir og þar sem þeir eru ekki búnir að fara í jólabaðið í Jarðböðunum og klippa táneglurnar, töldu menn að bjarndyr væri á ferðinni.
Töldu ýmsir leitarmenn sig heyra hlátur er þeir snéru aftur í bílana og ekki útilokað að bökunarlykt hafi slegið fyrir annað slagið og þykir fullvíst að sveinarnir úr Dimmuborgum séu að undirbúa heimboðið sem verður 22. nóvember.
Þessi ísbjörn var sem sagt bara tilbúningur eins og svo oft áður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.