Flugfélag stofnað á Blönduósi og Sauðárkróki
Nokkrir flugáhugamenn á Blönduósi og Sauðárkróki hafa stofnað flugfélag sem hefur þann tilgang að fljúga með farþega á milli Blönduóss og Sauðárkróks. Eiríkur Espilund er í forsvari hópsins, en flugfélagið mun hefja formlega starfsemi sína á næstu vikum. –Já við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir ferðum á þessari flugleið og þess vegna fórum við að skoða þetta af alvöru. Ég hef hitt marga hér á Blönduósi sem spyrja af hverju við förum ekki að fljúga á Krókinn og það sama segja félagar mínir á Sauðárkróki, þeir hafa fengið margar fyrirspurnir um þetta sama, sagði Eiríkur.
En nú er ekki nema um hálftíma akstur á milli staðanna, hvernig stendur á því að hægt verður að halda úti flugi þarna á milli? –Ja það er nú það sem við höfum klórað okkur í hausnum yfir og skiljum ekki alveg ástæðuna, en viðskiptaáætlunin okkar gengur fullkomlega upp. Við tókum einfaldlega fjölda þeirra fyrirspurna sem við höfum fengið um þetta, settum þá einstaklinga bara í Excel og áætluðum að þeir myndu sjálfir fljúga einu sinni í viku fram og til baka og þá fengum við það út að þetta myndi borga sig miðað við núverandi flugfélakost okkar, sem er Cessna 150 og tekur einn farþega, sagði Eiríkur.
Þeir félagar hafa ekki fundið nafn á flugfélagið og óska eftir hugmyndum og geta áhugasamir sent tölvupóst á Eirík á netfangið nvflug@gmail.com og komið hugmyndum á framfæri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.