Fékk höfðinglegar móttökur og fór í skoðunarferð fyrir misskilning
Erlendur ferðamaður datt heldur betur í lukkupottinn í síðustu viku þegar hann hugðist heimsækja Skagafjörð. Vissi hann ekki fyrr en heil móttökunefnd beið hans í Varmahlíð þegar hann kom úr rútunni og var hann drifinn inn í annan bíl og ekið um Skagafjörð.
Dreifarinn náði sambandi við ferðamanninn um það leyti sem hann var að stíga um borð í flugvél heim á leið, en hann kemur frá Skotlandi og heitir Tony MacAroni og kemur frá Edinborg. –Ég var bara að koma út úr rútunni í Varmhlith , þegar heljarinnar móttökunefnd tók á móti mér og ég var þegar í stað drifinn inn í smárútu, sagði Tony. –Við héldum sem leið lá á Hóla í Hjaltadal þar sem mér var sýnd dómkirkjan og fleiri áhugaverðir hlutir á staðnum. Þar var mér gefið að borða, alveg dýrindis bleikja og síðan var haldið í Vesturfarasafnið á Hofsósi þar sem við skoðuðum það hátt og lágt og ég fékk þessa mögnuðu leiðsögn.
Eftir heimsóknina í Vesturfarasetrið var Tony drifinn sem leið lá í Glaumbæ þar sem byggðastafnið var skoðað og síðan til Sauðárkróks þar sem hann skoðaði sig um með leiðsögn samferðafólks síns. En upp komst um heljarinnar misskilning þegar skila átti Tony á Hótel Tindastól þar sem hann var talinn eiga bókað herbergi. –Þau stoppuðu fyrir framan þetta fallega hús, Hótel Tindastól og buðust til að koma með mér inn til að tékka mig inn. En ég sagði þeim þá að ég ætti bókað herbergi á gistiheimilinu Miklagarði og upphófust þá miklar umræður meðal íslendinganna sem ég botnaði ekkert í. Ég var síðan spurður að nafni og þegar ég hafði svarað þeim því, sá ég að allir fölnuðu upp í kring um mig. Þá kom í ljós að þau höfðu fyrir misskilning haldið að ég væri einhver Gareth Stevens sem þau ætluðu að taka á móti og fara með í skoðunarferð um Skagafjörð, sagði Tony. –Mér var þá bara ekið sem leið lá á gistiheimilið Miklagarð og þar tékkaði ég mig inn seinna en áætlað var og ég átti hérna frábæra fjóra daga í Skagafirði eins og ég hafði sjálfur planað, sagði Tony að lokum við Dreifarann.
Skv. upplýsingum Dreifarans stóð Gareth þessi Stevens heillengi á planinu við Kaupfélagið í Varmahlíð og beið móttökunefndarinnar, sem aldrei kom. Hann gisti því á Hótel Varmahlíð og kvaddi Skagafjörð morguninn eftir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.