Er Tindastóllinn bara 850 metra hár?
Sveinn Eyleifsson sem nýlega gekk á fjallið Tindastól í Skagafirði segir að hann trúi því ekki að fjallið sé nærri þúsund metra hátt eins og víða má lesa. Skv. skólabókum og öllum helstu kortum, er Tindastóllinn skráður 989 metra hár, en Sveinn undrast það. –Ég er mjög reyndur fjallgöngumaður og hef gengið á mörg fjöll út um allt land, sagði Sveinn í stamtali við Dreifarann. –Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þeirri hæð sem ég er í hverju sinni og t.d. þegar ég stíg upp á stól get ég sagt til með mikill nákvæmni í hvaða hæð ég er, án þess að mæla það sérstaklega. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég gekk á Tindastólinn um daginn að hann væri sagður vera um 990 metrar, því ég hafði alls enga tilfinningu fyrir því. Mín tilfinning sagði að hann væri einungis um 850 metra hár, sagði Sveinn.
En er hann þá að rengja allar mælingar sem gerðar hafa verið og hafa verið skjalfestar í bókum og kortagrunnum í gegn um tíðina? –Já ég get ekki annað, því eins og ég sagði þá hef ég mjög góða tilfinningu fyrir þeirri hæð sem ég stend í hverju sinni. Ég t.d. fékk því breytt að lágt fjall fyrir austan var úrskurðað 50 metrum lægra eftir ábendingar frá mér – það endaði eiginlega bara sem hóll. Þannig að ég legg til að menn mæli Tindastólinn upp á nýtt og ég yrði ekki hissa ef hæðin á fjallinu yrði snögglega lækkuð niður í um 850 metra eins og ég hafði tilfinningu fyrir þegar ég stóð upp á því, sagði þessi snaggaralegi fjallagarpur í samtali við Dreifarann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.